
Nýting afplánunarplássa á Litla-Hrauni og í Kópavogsfangelsinu hefur verið 95-100% það sem af er þessu ári. Þá var nýting afplánunarplássa í Fangelsinu Kvíabryggju til 3. október sl. tæplega 99%. Nýting afplánunarplássa í Hegningarhúsinu var rúmlega 93% það sem af er þessu ári og í Fangelsinu Akureyri 86% til 9. maí 2007 er endurbygging þess hófst.
Í ræðu sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra flutti þann 3. október síðastliðinn við opnun endurbætts fangelsis á Kvíabryggju sagði hann meðal annars að markmið fangelsisyfirvalda væri að finna leiðir til þess að fækka þeim sem refsað er með fangelsisrefsingu.
Í samvinnu við SÁÁ hefur verið ráðinn áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá Félagasamtökunum Vernd. Hann mun sinna þeim sem afplána síðustu mánuði refsivistar á Áfangaheimili Verndar.
Hinn 1. desember sl. voru undirritaðar skriflegar reglur um málshraða. Reglurnar eiga að stuðla að því að mál sem Fangelsismálastofnun fær til afgreiðslu eða sendir frá sér sé afgreitt með skilvirkum hætti.
Lesa meiraÍ dag miðvikudaginn 12. desember kl. 17 verður aðventustund í íþróttahúsinu á Litla-Hrauni í umsjón sr. Hreins S. Hákonarsonar, fangaprests þjóðkirkjunnar. Jónas Þórir Þórisson organisti hefur umsjón með tónlistarflutningi.
Árni Johnsen, alþingismaður, leitaði til nokkurra aðila, félaga og einkaaðila, til að standa að kaupum á nýjum rúmum í öll 12 herbergi Kópavogsfangelsisins.
Lesa meiraÞann 12. nóvember 2007 var opnuð vímuefnalaus deild í Fangelsinu Litla-Hrauni. Tilgangur slíkrar deildar er fyrst og fremst sá að veita einstaklingum, sem vilja vera án vímuefna, tækifæri til að dveljast á deild, þar sem yfirlýstur vilji allra fanga sem þar dveljast, er að nota ekki vímuefni. Jafnframt að þeir fái stuðning og aðhald til að vera vímuefnalausir. Aðhald og stuðningur við þá sem vistast á meðferðardeildinni felst fyrst og fremst í því að veita fræðslu og stuðning varðandi vandamál og skaðsemi fíkniefnaneyslu, erfiðleika sem fylgja slíkri neyslu og síðast en ekki síst fræðsla um það hvernig á að lifa lífinu án vímuefna. Eins verður þátttakendum gefið tækifæri til að takast á við hagnýt verkefni svo sem að elda, þrífa, þvo þvotta, halda heimilisbókhald og fleira í þeim dúr.
Út er komið 2. tölublað 5. árgangs fréttablaðs sem gefið er út af föngum á Litla-Hrauni. Blaðið sem ber heitið Tímamót fjallar um málefni fanga og það sem þeim er efst í huga. Sjá nánar.
Lesa meiraÞað er ekki algengt að fjölmennar ráðstefnur séu haldnar í fangelsum. Ein slík var þó haldin laugardaginn 10. nóvember sl. á Litla-Hrauni og stóð hún frá kl. 10.00-14.00. Það var AA deild fanga, Brúin, sem stóð fyrir ráðstefnunni. Um 30 manns hafði verið boðið til ráðstefnunnar og álíka margir fangar mættu.
Við opnun Kvíabryggju þann 3. október síðastliðinn gat dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, þess að þar með lyki fyrsta áfanga dómsmálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar um endurnýjun og nýbyggingar fangelsa í landinu. Annar áfangi væri að endurbyggja fangelsið á Akureyri en framkvæmdum þar lýkur um áramótin. Þriðji áfangi fælist í verulegum endurbótum á Litla-Hrauni svo sem með því að reisa aðkomu- og heimsóknarhús, deild fyrir konur, sérdeild fyrir fanga sem geta búið við opnari aðstæður auk annarra endurbóta. Í fjórða lagi ætti að reisa nýtt fangelsi með 64 klefum á höfuðborgarsvæðinu.
Í ræðu ráðherra kom fram að ríkisstjórnin hefði deginum áður staðfest að áfram yrði unnið að uppbyggingu fangelsa í landinu í samræmi við áætlun.
Í tilefni af opnun Kvíabryggju 3. október sl. flutti Anne Marie Heckscher, forstöðumaður Fangelsisins í Omme í Danmörku, afar athyglisverðan fyrirlestur um rekstur opinna fangelsa, sjá nánar. Í fyrirspurn að honum loknum kom fram hjá henni að Danir hefðu hætt “hótelrekstri” í fangelsum þar í landi fyrir 15 árum. Með því átti hún við að þá hefðu fangar sjálfir tekið við allri matseld í fangelsunum, þrifum og eigin þvotti. Þessi stefna hefði reynst mjög vel við að endurhæfa fanga. Í raun hefðu margir fangar í fyrsta sinn lært að sjá um sig sjálfa þegar þeir voru í fangelsi.
Lesa meira
Fangelsið Kvíabryggja var formlega tekið í notkun eftir stækkun og verulegar endurbætur þar sem eftirleiðis verður unnt að vista 22 fanga af báðum kynjum í stað 14. Á þessum tímamótum verður byrjað að vinna eftir nýjum leiðum í fangelsinu. Fangelsið er nú formlega skilgreint sem opið fangelsi sem felur í sér að fangar sem þar vistast njóta ákveðins frelsis umfram þá sem vistast í lokuðu fangelsi. Þeir taka jafnframt á sig ábyrgð í samræmi við það. Sjá nánar.
Stefán P. Eggertsson verkfræðingur og verkefnastjóri fyrir uppbyggingu fangelsanna skilaði skýrslu um frumathugun fyrir Fangelsið Litla-Hraun.
Framkvæmdum við stækkun Fangelsisins Kvíabryggju og nýbyggingu Fangelsisins Akureyri miðar vel. Þá er vinna við þarfagreiningu fyrir nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu í fullum gangi og ennfremur undirbúningsvinna vegna fyrirhugaðrar enduruppbyggingar Fangelsisins Litla-Hrauni.
Hinn 4. maí sl. undirrituðu Fangelsismálastofnun og Öryggismiðstöð Íslands samning um mannaða öryggisgæslu vegna samfélagsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.