Fréttir

Útskrift úr Fangavarðaskólanum 2011

16.5.2011

 

Útskriftarnemendur Fangavarðaskólans 2011 ásamt Guðmundi Gíslasyni skólastjóraÚtskrift Fangavarðaskólans fór fram fimmtudaginn 12. maí sl. Nemendur skólans voru 10 talsins og stóðu sig með prýði. Að venju fór kennslan fram í húsnæði Lögregluskólans að Krókhálsi 5b, Reykjavík. Alls komu 20 kennarar og leiðbeinendur að kennslunni og er þeim og öðrum sem veittu aðstoð þakkað samstarfið.

 

 

 

 

 

 

Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, tók m.a. fram í ræðu sinni við útskriftina hve mikilvægt það væri að viðhalda því góða hugarfari sem myndast við skólaveruna. Útskriftarnemar kæmu fullir áhuga og þekkingar úr skólanum og hefðu mikinn vilja til þess að fara í einu og öllu eftir reglum í störfum sínum. Auk manngæsku væri heiðarleiki og reglufesta meðal þeirra kosta sem mikilvægastir væru í fangavarðastarfinu.  Þá kosti hefðu útskriftarnemar Fangavarðaskólans.

 

Nemendur Fangavarðaskólans 2011 ásamt Aðalheiði Dröfn Eggertsdóttur yfirkennara

Í ræðu Guðmundar Gíslasonar, skólastjóra, kom fram að Fangavarðaskólinn væri fagnám þar sem stór hluti þekkingarinnar er sóttur inn í starfsemina og nám og kennsla á sviði eins og fangavörslu væri “gagnvirk reynsla”, bæði nemendur og kennarar læra og nýta þekkingu hvor annars. Þjálfun starfsmanna og sú þekkingarmiðlun sem slíkt skilar er grundvöllurinn sem starfið byggir á. Allir sem starfa við refsivörsluna og allir sem þurfa að sæta refsingu hafa hag af svona fagskóla. Ekki mætti hugsa um nám fangavarða sem einhvern mikinn kostnað, það ætti frekar að hugsa um að námið væri nauðsynleg innspýting inn í kerfið. Menntun á að vera aflgjafi, suðuketill skoðanaskipta, reynslumiðlunar og samskipta til að læra eitthvað nýtt.

 

 

Meðaleinkunn útskriftarnema var góð eða 7,90.  Besta árangri á lokaprófum náði Arnar Már Sigurðsson, fangavörður í Hegningarhúsinu, með meðaleinkunnina 8,60 og var honum afhent viðurkenning fyrir góðan námsárangur. Að útskrift lokinni héldu nemendur til Kaupmannahafnar í kynnisferð í tvö dönsk fangelsi og fengu til þess styrk frá Innanríkisráðuneyti, Fangelsismálastofnun og Starfsmannafélagi Ríkisstofnana.

 

Útskriftarnemendur Fangavarðaskólans 2011 ásamt Aðalsteini Bernharðssyni lögreglufulltrúa og líkamsræktarkennara

Fyrsti hópur fangavarða sem fór í sérstakt nám útskrifaðist með lögreglumönnum eftir nokkurra vikna námskeið árið 1983 en þá var skólinn rekinn sem deild í Lögregluskólanum. Þetta er í 18. skipti sem Fangavarðaskólinn útskrifar nemendur á þeim 28 árum sem hann hefur verið starfræktur. Alls hafa um 160 fangaverðir verið útskrifaðir úr skólanum.

Senda grein