Fangelsið Bitra tekið í notkun
Fangelsið Bitra var formlega tekið í notkun í dag. Forstöðumaður fangelsisins, Margrét Frímannsdóttir, bauð gesti velkomna og til máls tóku, Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Þórunn Hafstein, ráðuneytisstjóri dómsmála- og mannréttindaráðuneytis sem opnaði fangelsið formlega í fjarveru Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, Erlendur S. Baldursson, Þráinn Farestveit, Einar Andrésson og sr. Hreinn Hákonarson, fangelsisprestur sem blessaði starfsemi fangelsisins.
Gert er ráð fyrir að vista allt að 20 fanga á Bitru. Fangelsið er skilgreint sem opið fangelsi en það felur í sér að engar girðingar eða múrar afmarka fangelsið. Því eru aðeins vistaðir þar fangar sem treyst er til að vera við þannig aðstæður.
Aðbúnaður í fangelsinu er góður og þar starfa átta fangaverðir undir stjórn Einars Vals Oddssonar, varðstjóra. Vandlega hefur verið staðið að undirbúningi og er öllum sem að honum komu þökkuð vel unnin störf.
Föngum er ætlað að stunda vinnu eða nám og við komu í fangelsið er hverjum og einum gert að skrifa undir samkomulag um vistunina. Fangar sjá sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju.