Úr "hótelþjónustu" í sjálfsumsjón
Í tilefni af opnun Kvíabryggju 3. október sl. flutti Anne Marie Heckscher, forstöðumaður Fangelsisins í Omme í Danmörku, afar athyglisverðan fyrirlestur um rekstur opinna fangelsa, sjá nánar. Í fyrirspurn að honum loknum kom fram hjá henni að Danir hefðu hætt “hótelrekstri” í fangelsum þar í landi fyrir 15 árum. Með því átti hún við að þá hefðu fangar sjálfir tekið við allri matseld í fangelsunum, þrifum og eigin þvotti. Þessi stefna hefði reynst mjög vel við að endurhæfa fanga. Í raun hefðu margir fangar í fyrsta sinn lært að sjá um sig sjálfa þegar þeir voru í fangelsi.
Þann 15. október nk. munu fangar taka við allri matseld á Kvíabryggju en til þessa hafa tvær matráðskonur séð um hana. Starfsmaður í fangelsinu mun hins vegar áfram sjá um innkaup og hafa yfirumsjón með matreiðslu fanganna.
Fangelsismálastofnun hefur lagt á það ríka áherslu undanfarin ár að gerð verði tilraun á Litla-Hrauni með að fangar eldi sjálfir en þeir hafa sýnt því mikinn áhuga. Hefur nú verið sköpuð aðstaða á einni deild til að þetta sé unnt. Hinn 4. október sl. tóku 11 fangar á deildinni yfir matreiðsluna. Þeir fá ákveðna upphæð á dag og sjá um öll innkaup matvæla í gegnum verslun í fangelsinu. Bindur stofnunin miklar vonir við að þetta verði föngum og aðstandendum þeirra til ánægju, kenni föngunum að vinna saman og auki lífsleikni þeirra. Til stendur að fá fagfólk til að vera með sýnikennslu í hollri matreiðslu og hagkvæmni í innkaupum. Verið er að leggja grunn að sambærilegum breytingum á eldunaraðstöðu í fleiri deildum fangelsisins.