
Forstjóri Fangelsismálastofnunar hefur sett verklagsreglur til viðmiðunar vegna heimsókna í fangelsi. Markmið reglnanna er að tryggja að heimsóknir í fangelsi séu samkvæmt lögum og reglugerð og jafnframt að stuðla að góðri reglu, ró og öryggi í fangelsi og til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað svo sem innflutningi fíkniefna með heimsóknargestum í fangelsi.
Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, heimsótti Fangelsið Litla-Hraun í gær ásamt aðstoðarmanni og samstarfsfólki úr dómsmálaráðuneytinu. Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar og Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Fangelsisins Litla-Hrauni, tóku á móti þeim. Efnt var til starfsmannafundar þar sem ráðherra ræddi um uppbyggingu fangelsanna og framtíð fangelsismála. Þá var heimsóknargestum sýnt fangelsið og sú aðstaða sem þar er.