
Útskrift Fangavarðaskólans fór fram 16. apríl síðastliðinn. Níu nemendur sóttu skólann að þessu sinni og stóðu sig með prýði. Kennslan fór sem fyrr fram í húsnæði Lögregluskólans að Krókhálsi 5b, Reykjavík. Alls komu 16 kennarar og leiðbeinendur að kennslunni og er þeim og öðrum sem lögðu hönd á plóg þakkað samstarfið.
Síðastliðinn föstudag heimsótti Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra Fangelsið Litla-Hraun og Fangelsið Bitru. Með henni í för voru Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður hennar og Jón Magnússon, skrifstofustjóri í ráðuneytinu.
Ragna fór yfir ýmis mál með forstjóra Fangelsismála-stofnunar, Páli E. Winkel og forstöðumanni fangelsisins, Margréti Frímannsdóttur, svo sem heilbrigðismál fanga, vinnumál og fleiri mál. Þá ávarpaði ráðherra starfsmenn á fundi sem haldinn var á Litla-Hrauni þar sem fangelsismál voru til umræðu.
Ennfremur heimsótti ráðherra og fylgdarlið Fangelsið Bitru sem tekið verður í notkun á næstu dögum.
Einar Valur Oddsson, sem falið hefur verið að vera varðstjóri yfir fangelsinu, tók á móti heimsóknar-gestum.