Fangelsið Litla-Hrauni fær fíkniefnaleitarhund
Þorsteinn Hraundal, lögreglumaður og umsjónarmaður fíkniefnaleitarhunds, mun innan skamms láta Fangelsismálastofnun í té hund til fíkniefnaleitar. Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hefur ákveðið að veita fjármagn til að ráða starfsmann til að þjálfa hundinn og enn fremur til kaupa á bifreið en hundurinn mun verða notaður til fíkniefnaleitar í öllum fangelsum ríkisins.
Þorsteinn Hraundal hefur boðist til að sjá um þjálfun fíkniefnaleitarhundsins og umsjónarmanns hans stofnuninni að kostnaðarlausu. Hundurinn verður staðsettur í Fangelsinu Litla-Hrauni. Hann verður þjálfaður til leitar við allar aðstæður og er þess vænst að hundurinn komi að gagni í baráttunni við fíkniefnaneyslu í fangelsunum.
Fangelsismálastofnun færir Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra og Þorsteini Hraundal, lögreglumanni, bestu þakkir fyrir rausnarlegt framtak.