Fréttir

Meðferðardeild hefur verið opnuð í Fangelsinu Litla-Hrauni

3.12.2007

Þann 12. nóvember 2007 var opnuð vímuefnalaus deild í Fangelsinu Litla-Hrauni. Tilgangur slíkrar deildar er fyrst og fremst sá að veita einstaklingum, sem vilja vera án vímuefna, tækifæri til að dveljast á deild, þar sem yfirlýstur vilji allra fanga sem þar dveljast, er að nota ekki vímuefni. Jafnframt að þeir fái stuðning og aðhald til að vera vímuefnalausir. Aðhald og stuðningur við þá sem vistast á meðferðardeildinni felst fyrst og fremst í því að veita fræðslu og stuðning varðandi vandamál og skaðsemi fíkniefnaneyslu, erfiðleika sem fylgja slíkri neyslu og síðast en ekki síst fræðsla um það hvernig á að lifa lífinu án vímuefna. Eins verður þátttakendum gefið tækifæri til að takast á við hagnýt verkefni svo sem að elda, þrífa, þvo þvotta, halda heimilisbókhald og fleira í þeim dúr.

Rekstur sérstakra vímuefnalausra deilda þykir sjálfsagður liður í fangelsisstarfi í nágrannalöndum okkar sem liður í baráttu gegn ört vaxandi neyslu fíkniefna en þessi neysla er vandamál innan fangelsa sem utan. Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu , svokölluð CPT-nefnd, hefur gagnrýnt skort á meðferðardeild fyrir fanga á Íslandi í skýrslum sínum síðastliðin 10 ár.

Á árinu 2001 var gerð tilraun til að vera með meðferðardeild á Litla-Hrauni en rekstri hennar var hætt vegna fjárskorts. Gerði CPT-nefndin athugasemdir við að deildin hefði verið aflögð í skýrslu vegna heimsóknar nefndarinnar hingað til lands sumarið 2004. Í fjárlagatillögum Fangelsismálastofnunar hefur margsinnis verið óskað eftir framlagi til til að koma á meðferðardeild, nú síðast fyrir árið 2008 en án árangurs og er alls óvíst að úr rætist með komandi fjárlögum.

Fangelsismálastofnun telur að ekki megi lengur dragast að koma á deild sem þessari og hefur því í samvinnu við Fangelsið Litla-Hrauni ákveðið að ráðast í þetta verkefni í tilraunaskyni til sex mánaða. Fræðsla og stuðningur sem í boði er er einkum í höndum starfsmanna fangelsisins og heilbrigðisstarfsmanna Litla-Hrauns. Þá hefur verið leitað eftir stuðningi af hálfu annarra aðila sem hafa þekkingu á þessum málum og er til að mynda fyrirhugað að haldnir verði sérstakir AA fundir fyrir þá sem eru á deildinni.

Allir fangar á Litla-Hrauni eiga kost á því að sækja um vistun á meðferðardeildinni að uppfylltum þeim skilyrðum sem á deildinni gilda. Gert er ráð fyrir því að dvalartími hvers fanga á deildinni sé um það bil þrjá mánuði. Að þeim tíma loknum er staða viðkomandi fanga metin og ákvörðun tekin um framhaldið.



Senda grein