Haldið var upp á 80 ára afmæli Fangelsisins Litla-Hrauni í gær
Haldið var upp á 80 ára afmæli Fangelsisins Litla-Hrauni með pompi og pragt í íþróttasal fangelsisins í gær. Forstöðumaður fangelsisins, Margrét Frímannsdóttir, bauð gesti velkomna. Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra ávörpuðu gesti.
Fangelsið var sett á laggirnar 8. mars 1929. Afmælið var haldið í íþróttasal fangelsisins og var salurinn skreyttur myndum og listmunum sem fangar hafa gert. Tónlistaratriði var í boði fanga og stjórn Afstöðu, félags fanga, hjálpaði til við veitingar. Sr. Hreinn Hákonarson, fór yfir 80 ára sögu fangelsisins og nokkur skondin atvik í sögu þess.
Starfsmönnum sem unnið hafa yfir 20 ár var veitt viðurkenning fyrir vel unnin störf.
Jón Sigurðsson, deildarstjóri flutti fráfarandi forstöðumanni, Kristjáni Stefánssyni, þakkir frá starfsmönnum.
Sveitarstjórinn í Árborg og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þökkuðu góða samvinnu við fangelsið og óskuðu starfsmönnum og vistmönnum heilla í framtíðinni.
Sjá nánar:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/03/08/80_ara_afmaeli_litla_hrauns/
Seinni part dagsins komu svo ýmsir skemmtikraftar, Hemmi Gunn, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson o.fl. til að skemmta föngum.
Sjá nánari upplýsingar um fangelsið: /fangelsi-rikisins/fangelsid-litla-hrauni/