Halldór Valur Pálsson skipaður forstöðumaður Litla-Hrauns og Sogns

Halldór Valur Pálsson hefur verið skipaður forstöðumaður Fangelsisins Litla-Hrauni og Fangelsisins Sogni.
Halldór Valur er 35 ára stjórnmálafræðingur og hefur starfað hjá Fangelsismálastofnun frá árinu 2004, síðast sem öryggisstjóri. Hann hefur komið að mörgum verkefnum hjá stofnuninni á þessum tíma og hefur yfirgripsmikla þekkingu á fangelsismálum og verkefnum stofnunarinnar. Halldór Valur hefur borið ábyrgð á rekstri samfélagsþjónustu, umsjón og innleiðingu rafræns eftirlits, fjölmörgum verkefnum á sviði öryggismála innan fangelsanna, umsjón með dags- og skammtímaleyfum fanga og viðbragðsáætlanagerð. Þá hefur hann sinnt kennslu í Fangavarðaskólanum og tekið þátt í norrænu samstarfi á sviði fangelsismála. Halldór Valur hefur setið í vinnuhópum vegna þarfagreiningar og hönnunar nýs fangelsis á Hólmsheiði, verið ráðgjafi dómnefnda í samkeppni um hönnun þess, verið fulltrúi stofnunarinnar í verkefninu á byggingartíma og komið að fleiri uppbyggingarverkefnum í fangelsiskerfinu á undanförnum árum.