Frumathugun vegna uppbyggingar og breytinga á Fangelsinu Litla-Hrauni.
Stefán P. Eggertsson verkfræðingur og verkefnastjóri fyrir uppbyggingu fangelsanna skilaði skýrslu um frumathugun fyrir Fangelsið Litla-Hraun.
Í september 2005 var gerð forathugun og frumáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Fangelsið Litla-Hraun. Þar var gert ráð fyrir 83 fangaplássum þar af 6 fyrir kvenfanga. Heildarkostnaður var áætlaður á verðlagi ágúst 2005 488 milljónir króna og rekstrarkostnaður á hvert fangapláss hljóðaði upp á 4,6 milljónir. Það var niðurstaða forathugunar að þróa þyrfti frekar hugmyndirnar einkum með því markmiði að ná fram hagkvæmri lausn. Árið 2006 var unnin þarfagreining og var skýrsla um frumathugun lögð fram í ágúst 2006.
Í október 2006 skipaði dómsmálaráðherra nefnd um framtíðarrekstur fangelsisins. Meðal annars var henni ætlað að skoða öryggismálin í heild, öryggi og starfsaðstöðu kvenfanga, vinnu fanga, hlutverk fangavarða og kanna leiðir til að sporna gegn fíkniefnaneyslu í fangelsinu. Samstarf við nefndina og frekari viðræður við starfsfólk fangelsisins leiddi til þess að nýjar forsendur eru nú lagðar til grundvallar einkum varðandi heimsóknaraðstöðu, fjölda heimsóknarherbergja og aðstöðu heimsóknargesta. Þá hefur fyrirhugaðri staðsetningu móttöku- og heimsóknarhúss verið breytt þannig að húsið verði jafnframt aðalinngangur inn á fangelsislóðina. Í þessu húsi verði starfsmannaaðstaða, vörumótttaka og aðstaða til að hafa eftirlit með öllum þeim sem inn í fangelsið koma. Endurskoðaðar voru forsendur fyrir tengibyggingu milli húsa 3 og 4 og gert ráð fyrir fleiri starfsstöðvum þar. Endurskoðaðar voru forsendur fyrir sérstakri deild fyrir fanga sem búið geta við opnari aðstæður og í einhverjum tilvikum sækja vinnu utan fangelsisins. Var það gert m. a. vegna reynslu Dana af rekstri slíkra deilda og ákveðið að hafa þar 8 pláss í stað 12. Þetta leiðir til þess að gert er ráð fyrir 79 fangaplássum í fangelsinu eða 4 færri en í fyrri tillögum. Aðrar hugmyndir eru óbreyttar.
Frumuppdrættir liggja nú fyrir af þessum breytingum. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 528,3 milljónir króna en rekstrarkostnaður á hvert fangapláss 4,3 milljónir, sem er 8,5% lækkun frá fyrri áætlun.
Í tímaáætlun, sem er hluti frumathugunar, er gert ráð fyrir að fyrst verði ráðist í framkvæmdir við móttöku- og heimsóknarhús og það tekið í notkun áður en hafist verði handa við aðrar framkvæmdir. Þær framkvæmdir gætu hafist hálfu ári eftir að hönnun hefst og talið er unnt að ljúka við húsið á 12 mánuðum. Þannig er gert ráð fyrir tveimur útboðum og eðlilegur tími ætlaður til áætlunargerðar og verklegra framkvæmda en heildarframkvæmdatími er áætlaður þrú ár.
Skýrslan er nú til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu.