Fréttir

Ný lög um rafrænt eftirlit og rýmkun samfélagsþjónustu tóku gildi 1. október sl.

31.10.2011

Þann 1. október sl. tóku gildi lög nr. 129/2011 um breytingu á lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005 (rafrænt eftirlit, samfélagsþjónusta). Megintilgangur laganna er að lögfesta nýtt fullnustuúrræði, rafrænt eftirlit með dómþolum sem afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu og hins vegar að hækka þá hámarksrefsingu sem unnt er að fullnusta með samfélagsþjónustu í 9 mánaða fangelsi.

Rafrænt eftirlit er fullnustuúrræði sem felur í sér að föngum er heimilað að afplána refsingu utan fangelsis enda hafi þeir á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum þeirra. Þeim er yfirleitt gert skylt að stunda vinnu, nám eða önnur verkefni sem samþykkt eru og eru liður í aðlögun þeirra að samfélaginu á ný. Búnaðurinn sem þeir hafa á sér gerir eftirlitsaðilum kleift að fylgjast með því að þeir mæti á þá staði sem þeim ber að vera og séu á heimili sínu þegar þess er krafist. Þá er einnig haft eftirlit með þeim á dvalarstað þeirra til þess að tryggja að þeir fari að settum skilyrðum, eins og t.d. banni við neyslu áfengis og fíkniefna. Einnig er lögð áhersla á félagslega þjónustu og aðra aðstoð við fanga á fullnustutímanum.

Skilyrði þess að rafrænt eftirlit komi til álita eru:

  1. að fangi teljist hæfur til að sæta rafrænu eftirliti,
  2. að fangi hafi fastan dvalarstað sem samþykktur hefur verið af fangelsismálastofnun,
  3. að maki fanga, forráðamaður, nánasti aðstandandi eða húsráðandi samþykki að hann sé undir rafrænu eftirliti á sameiginlegum dvalarstað þeirra,
  4. að fangi stundi vinnu, nám, sé í starfsþjálfun, meðferð eða sinni öðrum verkefnum sem fangelsismálastofnun hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný,
  5. að fangi hafi áður nýtt sér úrræði skv. 1. mgr. 24. gr. með fullnægjandi hætti,
  6. að fangi hafi ekki rofið skilyrði rafræns eftirlits á síðastliðnum þremur árum,
  7. að fangi eigi að jafnaði ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur því ekki af völdum fangans.
  8.  

Í greinargerð með lögunum kemur fram að ekki þyki rétt að ákveða fyrir fram hvernig búnaður verði notaður en um geti verið að ræða rafrænan búnað, ökklaband eða annan viðlíka búnað sem fullnægir skilyrðum ákvæðisins, t.d. farsíma sem er búinn myndavél og staðsetningartækni eða öðrum búnaði sem gerir fangelsismálastofnun kleift að sannreyna staðsetningu fanga. Lagt er í hendur fangelsismálastofnunar að ákveða nánar hvers konar búnaður kemur til greina og mæla fyrir um eftirlitið að öðru leyti.

Fangelsismálastofnun vinnur nú að því að ákveða hvaða búnaður verði fyrir valinu.

Senda grein