Rafrænt eftirlit með dómþolum
Í ræðu sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra flutti þann 3. október síðastliðinn við opnun endurbætts fangelsis á Kvíabryggju sagði hann meðal annars að markmið fangelsisyfirvalda væri að finna leiðir til þess að fækka þeim sem refsað er með fangelsisrefsingu.
Lágt hlutfall fanga hlýtur að vera keppikefli sérhverrar þjóðar og því ber að fagna þessum orðum dómsmálaráðherra. Á Íslandi er fangafjöldi í fangelsum u.þ.b. 40 á hverja 100.000 íbúa sem er einhver sá lægsti í Evrópu. Á hinum Norðurlöndunum er fangafjöldi um 70-75 á hverja 100.000 íbúa. Eftir þessu er tekið á erlendum vettvangi og leitað skýringa enda er ekkert sem bendir til þess að afbrotatíðni sé minni hér en t.d. á hinum Norðurlöndunum.
Hvað Ísland varðar þá hefur þessi árangur náðst m.a. með því að beita skilorðsdómum og með því að nota samfélagsþjónustu með góðum árangri en um 25% óskilorðsbundinna refsidóma eru fullnustaðir með samfélagsþjónustu. Þá hafa ýmsar meðferðarstofnanir verið nýttar hér á landi fyrir fanga og jafnvel í meira mæli en í nágrannalöndum okkar. Síðast en ekki síst hefur Áfangaheimilið Vernd, sem orðinn er annar stærsti afplánunarstaður á landinu, hjálpað mikið til og á síðustu árum hefur sá tími sem fangar geta dvalið þar í lok afplánunar verið lengdur verulega.
Fyrir nokkrum árum tóku Svíar upp rafrænt eftirlit með þeim sem fengið höfðu fangelsisrefsingu allt að þremur mánuðum í stað hefðbundinnar fangelsisafplánunar. Dómþolar sóttu þá um að refsingin yrði fullnustuð með rafrænu eftirliti. Ef umsókn var samþykkt af sænsku fangelsismálastofnuninni þá var rafrænu bandi komið fyrir á ökkla dómþola og það síðan tengt við eftirlitstölvu. Í dag getur rafrænt eftirlit í Svíþjóð komið í stað allt að 6 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Eftirlitið er í stuttu máli á þann veg að dómþola er gert að halda sig á ákveðnum stöðum á ákveðnum tímum. Dómþoli stundar yfirleitt vinnu eða nám með hefðbundnum hætti og tæknin fylgist með því að hann mæti í skóla eða á vinnustað. Honum er svo gert skylt að mæta heim til sín á ákveðnum tíma. Ef hann fer ekki að fyrirmælum lætur tölvan vita og brugðist er við í samræmi við það. Þá hafa sérstakir eftirlitsmenn einnig farið á heimili dómþolans til þess að fylgjast með því að hann fari að settum skilyrðum eins og t.d. banni við neyslu áfengis og fíkniefna. Einnig hafa Svíar tekið upp það nýmæli að losa fanga úr afplánun 6-8 mánuðum áður en til hefðbundinnar reynslulausnar kemur og láta þá sæta rafrænu eftirliti á þeim tíma.
Reynsla Svía hefur verið mjög góð og afar fátítt er að dómþolar hafi gerst sekir um skilorðsrof. Samkvæmt upplýsingum frá sænsku fangelsismálastofnuninni gefur þetta úrræði fæstar endurkomur í fangelsi þegar um er að ræða fullnustu refsinga almennt. Danir hafa nýlega hafið fullnustu á styttri refsidómum með rafrænu eftirliti. Einnig þar sækja dómþolar um til fangelsismálastofnunar. Þá eru Norðmenn komnir langt með að undirbúa fullnustu dóma með rafrænu eftirliti og Finnar eru einnig með slíka fullnustu í undirbúningi.
Hér á landi hefur heildarrefsitími mældur í árum aukist um 65 ár frá árinu 2004 til 2007. Þetta er mikil aukning og því fyrirsjánlegt að föngum muni fjölga verulega verði ekki leitað nýrri leiða. Fangelsismálastofnun telur því nauðsynlegt að hefja nú þegar undirbúning að rafrænu eftirliti hér á landi og nýta reynslu nágranna okkar af þessari refsifullnustu. Rafræna eftirlitið er dýrt eins og það hefur verið framkvæmt á Norðurlöndunum. Bæði er tækjabúnaður allur mjög dýr þannig að stofnkostnaður er hár og eins kostar hefðbundið eftirlit mikið. Vel má vera að unnt sé að hafa rafrænt eftirlit með einfaldara móti en tíðkast hjá nágrönnum okkar án þess að öryggið minnki. Sem dæmi má nefna að mikil og góð reynsla hefur skapast í sambandi við eftirlit með dómþolum sem afplána á Áfangaheimili Verndar. Þá má spyrja sig hvort ekki sé unnt að nota staðsetningarbúnað þ.e. GPS kerfi og tengja eftirlitið öðrum eftirlitskerfum sem fyrir eru. Með aukinni tækni mætti efla það til muna gagnvart þeim sem yrðu látnir afplána refsingu með þessum hætti. Ekki er fjarri lagi að áætla að 10-20 fangelsispláss gætu sparast hér á landi með rafrænu eftirliti.