
Á forsíðu 24 stunda er í dag, fimmtudag 31. janúar, fjallað um fyrirtækjarekstur fyrrum refsifanga. Er þar m.a. tekið fram að fyrirtæki viðkomandi bjóði upp á símsvörun fyrir fyrirtæki sem fangar á Kvíabryggju sinni. Jafnframt er tekið fram að um sé að ræða tilraunaverkefni til eins árs sem unnið sé í samstarfi við fangelsismálastofnun.
Sérsveit fangavarða fundaði ásamt fulltrúum fangelsismálastofnunar þann 24. janúar sl. Farið var yfir framtíðarfyrirkomulag sérsveitar og lögð drög að uppbyggingu hennar. Fyrirhugað er að auka æfingar og gera sveitina enn betur í stakk búna fyrir krefjandi verkefni.
Nefnd sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra skipaði í maí 2006 til þess að fjalla um og vinna að stefnumótun í menntunarmálum fanga hefur nú lokið störfum og skilað tillögum sínum í skýrslu til ráðherra. Nefndinni, sem skipuð var að tillögu Valtýs Sigurðssonar, þáverandi fangelsismálastjóra, var sérstaklega falið að huga að fjarnámi, verkmenntun, menntun fanga af erlendum uppruna og þeim hópi fanga sem af ýmsum ástæðum hafa fallið út úr skyldunámi.
Lesa meiraMorgunverðarfundur verður haldinn á Grand Hóteli, Reykjavík, 25. janúar næstkomandi kl. 08-10. Fundarefnið er: - Börn og refsingar – Hvernig viljum við haga málum ungmenna sem hafa leiðst út í afbrot.
Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur umsjón með skólahaldi fanga í Fangelsinu Litla-Hrauni. Á vorönn eru 29 nemendur skráðir til náms en tveir til viðbótar höfðu innritað sig en hættu við. Tveir nemendur eru skráðir í fjarnám við aðra skóla en FSu og tveir hafa sótt um að stunda fjarnám við Fjöltækniskóla Íslands í fjarnámi á þessari önn. Aðgengi að netsambandi er takmarkað hvað tímalengd varðar og er undir ströngu eftirliti kennslustjórans á Litla-Hrauni.