
Við opnun Kvíabryggju þann 3. október síðastliðinn gat dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, þess að þar með lyki fyrsta áfanga dómsmálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar um endurnýjun og nýbyggingar fangelsa í landinu. Annar áfangi væri að endurbyggja fangelsið á Akureyri en framkvæmdum þar lýkur um áramótin. Þriðji áfangi fælist í verulegum endurbótum á Litla-Hrauni svo sem með því að reisa aðkomu- og heimsóknarhús, deild fyrir konur, sérdeild fyrir fanga sem geta búið við opnari aðstæður auk annarra endurbóta. Í fjórða lagi ætti að reisa nýtt fangelsi með 64 klefum á höfuðborgarsvæðinu.
Í ræðu ráðherra kom fram að ríkisstjórnin hefði deginum áður staðfest að áfram yrði unnið að uppbyggingu fangelsa í landinu í samræmi við áætlun.
Í tilefni af opnun Kvíabryggju 3. október sl. flutti Anne Marie Heckscher, forstöðumaður Fangelsisins í Omme í Danmörku, afar athyglisverðan fyrirlestur um rekstur opinna fangelsa, sjá nánar. Í fyrirspurn að honum loknum kom fram hjá henni að Danir hefðu hætt “hótelrekstri” í fangelsum þar í landi fyrir 15 árum. Með því átti hún við að þá hefðu fangar sjálfir tekið við allri matseld í fangelsunum, þrifum og eigin þvotti. Þessi stefna hefði reynst mjög vel við að endurhæfa fanga. Í raun hefðu margir fangar í fyrsta sinn lært að sjá um sig sjálfa þegar þeir voru í fangelsi.
Lesa meira
Fangelsið Kvíabryggja var formlega tekið í notkun eftir stækkun og verulegar endurbætur þar sem eftirleiðis verður unnt að vista 22 fanga af báðum kynjum í stað 14. Á þessum tímamótum verður byrjað að vinna eftir nýjum leiðum í fangelsinu. Fangelsið er nú formlega skilgreint sem opið fangelsi sem felur í sér að fangar sem þar vistast njóta ákveðins frelsis umfram þá sem vistast í lokuðu fangelsi. Þeir taka jafnframt á sig ábyrgð í samræmi við það. Sjá nánar.