Setning Fangavarðaskólans á vorönn 2008
Nemendur að þessu sinni eru 10 talsins, tvær konur og átta karlar. Fimm nemendanna koma frá Fangelsinu Litla-Hrauni, þrír frá fangelsum á höfuðborgarsvæðinu, einn frá Fangelsinu Kvíabryggju og einn frá Fangelsinu Akureyri.
Guðmundur Gíslason skólastjóri bauð nemendur, kennara og gesti velkomna og fór stuttlega yfir sögu skólans, fyrirkomulag skólahalds og væntingar til starfsins framundan. Jafnframt þakkaði hann fyrir mjög gott samstarf við lögregluna og góða aðstöðu í Lögregluskólanum.
Páll Winkel, nýskipaður forstjóri Fangelsismálastofnunar flutti ávarp og setti síðan skólann formlega.
Nám fangavarða 2008 verður með svipuðu sniði og á síðasta ári, tæplega 16 vikna grunnnám, síðan starfsþjálfun og að lokum sex vikna verkefnavinna á framhaldsönn í haust. Enn meiri áhersla verður lögð á verklegar æfingar, samskipti og almenna starfsfærni nú en á síðasta ári, sem er í samræmi við þá þróun sem á sér stað í svipaðri fagmenntun hér á landi eins og á hinum Norðurlöndunum.