Fréttir

Nefnd um menntunarmál fanga hefur skilað skýrslu

21.1.2008

Nefnd sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra skipaði í maí 2006 til þess að fjalla um og vinna að stefnumótun í menntunarmálum fanga hefur nú lokið störfum og skilað tillögum sínum í skýrslu til ráðherra. Nefndinni, sem skipuð var að tillögu Valtýs Sigurðssonar, þáverandi fangelsismálastjóra, var sérstaklega falið að huga að fjarnámi, verkmenntun, menntun fanga af erlendum uppruna og þeim hópi fanga sem af ýmsum ástæðum hafa fallið út úr skyldunámi.

Skýrslu nefndarinnar fylgir rannsóknarskýrsla um íslenskan hluta samnorrænnar rannsóknar á menntun fanga sem fangar í afplánun á Íslandi tóku þátt í í október og nóvember 2006. Könnunin var gerð að tilhlutan menntamálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis og byggir nefndin tillögur sínar að miklu leyti á niðurstöðum hennar. Heildarskýrsla um niðurstöður allra Norðurlandanna er væntanleg á þessu ári.

Í nefndinni áttu sæti Ásgerður Ólafsdóttir, sérfræðingur, menntamálaráðuneyti, sem jafnframt var formaður, Dís Sigurgeirsdóttir, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Erlendur S. Baldursson, Fangelsismálastofnun og Sigurður Sigursveinsson, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Selfossi. Sjá nánar í fréttatilkynningu menntamálaráðuneytisins.

Sjá skýrslu um menntun í fangelsum á Norðurlöndunum:  Nordic Prison Education.



Senda grein