Fréttir

Menntun fanga í fangelsum ríkisins

8.3.2010

Boðið er upp á ýmsa áfanga og námskeið fyrir fanga í fangelsum ríkisins. Námsráðgjafi var ráðinn í hálft starf 1. mars 2008. Starfið var síðan hækkað í heila stöðu frá 1. ágúst 2008. Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu var það aftur lækkað í 50% 2009 en hefur nú verið 75% starfshlutfall frá síðustu áramótum.

Í Fangelsinu Litla-Hrauni er boðið upp á áfanga á framhaldsskólastigi sem Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur umsjón með. Nú eru 46 fangar skráðir í framhaldsskólanámið en alls voru 50 fangar skráðir á þessari önn í mismikið nám. Þar fyrir utan er nú einnig boðið upp á íslensku fyrir útlendinga í samræmi við tillögur nefndar um menntunarmál fanga og nýta margir sér þá kennslu. Einnig er boðið upp á áfanga í logsuðu og komust færri að en vildu.

Í Fangelsinu Kópavogsbraut 17 er boðið upp á nám í samvinnu við Mennaskólann í Kópavogi. Eftirspurnin var mest í enskunám, spænsku og tölvunám og nú eru 6-7 fangar skráðir í þessa áfanga, ýmist einn eða alla. Þar að auki stundar einn fangi fjarnám á framhaldsskólastigi.

Í Fangelsinu Kvíabryggju eru 4 fangar skráðir í fjarnám. Fyrirhugað er að bjóða upp á tölvunámskeið.

Í Fangelsinu Akureyri eru 2 einstaklingar í fjarnámi í einum til þremur áföngum. Á næstunni verður föngum þar boðið upp á námskeiðið „Á beinni braut“ sem byggt er upp á sjálfstyrkingu, náms- og lestrartækni, tölvuþjálfun og áhugasviðsgreiningu.

Þá hafa sálfræðingar og félagsráðgjafar Fangelsismálastofnunar haldið námskeið og má þar nefna reiðistjórnun og sjálfstyrkingu. Einnig hefur verið boðið upp á námskeið í matreiðslu og silfursmíði.



Senda grein