Fréttir

Formlegt samkomulag um vistun afplánunarfanga á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti undirritað

28.5.2009

Heidar_Gudnason_og_Pall_E._WinkelPáll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar og Heiðar Guðnason, framkvæmdastjóri Samhjálpar, undirrituðu í gær formlegt samkomulag um vistun afplánunarfanga á Hlaðgerðarkoti. Markmiðið með þessu er meðal annars það að undirbúa fanga betur undir lífið að lokinni refsivist.

Frá árinu 2002 hefur Fangelsismálastofnun í góðri samvinnu við Hlaðgerðarkot gefið föngum kost á því að vistast í áfengis- og fíkniefnameðferð þar.

Fangelsismálastofnun ákveður hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til vistunar í vímuefnameðferð. Það er forsenda fyrir því að fangi fái að afplána í meðferð að hann fallist á þau skilyrði sem honum eru sett og sé viljugur til að takast á við sín mál.

Gert er ráð fyrir því að 3 – 4 fangar séu vistaðir á Hlaðgerðarkoti í einu í samtals 40 daga.

Alls hafa 118 fangar vistast á Hlaðgerðarkoti frá árinu 2002. Sjá nánar.



Senda grein