Fréttir

Aukið samstarf milli Félagsþjónustu Reykjanesbæjar og Fangelsismálastofnunar

9.6.2005

Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar (FFR) hefur ákveðið að efla samstarf við Fangelsismálastofnun varðandi húsnæðismál og félagslega aðstoð við fanga sem eru að ljúka afplánun og eru með skráð lögheimili í Reykjanesbæ.

Fangelsismálastofnun hefur borist bréf frá félagsmálastjóra Reykjanesbæjar þar sem fram kemur vilji hjá Reykjanesbæ til að vinna gegn þeim áhættuþáttum sem stuðla að endurkomu einstaklinga í fangelsi. Í bréfinu er vísað til ráðstefnu sem haldin var um þjónustu við fanga á Hótel Örk í Hveragerði 15. apríl sl., þar sem fram kom í erindi Margrétar Sæmundsdóttur, deildarstjóra hjá Fangelsismálastofnun, að félagslegir þættir, s.s. hvort viðkomandi er í sambúð, hafi öruggan samastað, eigi í geðrænum vanda eða sé háður fíkniefnum, hafi hvað mest áhrif á möguleika viðkomandi til að fóta sig í lífinu að lokinni afplánun.

Fangelsismálastofnun fagnar bréfinu.

Senda grein