Fréttir

Enn eitt aðsóknarmetið að menntun í fangelsum á síðastliðnu skólaári

9.7.2014

Enn eitt aðsóknarmetið að menntun í fangelsum var slegið á skólaárinu 2013-2014.  Alls innrituðust í nám á Litla-Hrauni og Sogni 68 nemendur á haustönn 2013.  Þar af voru fjórir í háskólanámi, en hinir 64 voru skráðir í nám á vegum Fjölbrautaskólans á Selfossi (FSu).  Á vorönn 2014 voru samtals 70 nemendur innritaðir í nám; fjórir í háskólanám, 65 í nám á vegum FSu og einn í nám á vegum Menntaskólans í Kópavogi (MK).


Í Fangelsinu Akureyri stunduðu 9 nemendur lengra eða skemmra nám (fjarnám) á síðastliðnu skólaári.  Í Fangelsinu Kópavogsbraut 17 stunduðu 12 nemendur eitthvert nám á sama tímabili, annað hvort í kennslutímum hjá kennurum MK sem koma í fangelsið til að kenna eða í fjarnámi. Í Fangelsinu Kvíabryggju stunduðu 28 nemendur nám á síðastliðnu skólaári og þar eins og annars staðar eru nemendur að innrita sig allt skólaárið og eru mislengi í námi.

Skólahald á Litla-Hrauni og Sogni:

Á haustönn sinntu samtals fjórir kennarar frá FSu staðbundinni kennslu á Sogni auk þess sem Ingis Ingason, kennslustjóri beggja fangelsa og Anna Fríða Bjarnadóttir, náms- og starfsráðgjafi allra fangelsa, komu þangað einu sinni í viku sinn daginn hvort.  Á Litla-Hrauni sinntu sex kennarar við FSu staðbundinni kennslu auk kennslustjóra. Starfsaðstaða kennslustjóra og náms- og starfsráðgjafa er á Litla-Hrauni. Auk framangreindra kennara komu sjö kennarar frá FSu að fjarnámi í samtals 17 áföngum í fangelsunum báðum.

Á vorönn sinntu fjórir kennarar staðbundnu námi á Sogni auk þess sem Hjördís Árnadóttir, nýr náms- og starfsráðgjafi og Ingis, kennslustjóri, fóru þangað einu sinni í viku.  Á Litla-Hrauni kenndu fimm kennarar einu sinni til tvisvar sinnum í viku hverri og einn kennari kom á hálfsmánaðar fresti frá FSu til að kenna grunnteikningu.  Enginn fangi sótti nám við dagskóla FSu á Selfossi á önninni en allnokkur hópur fanga í báðum fangelsunum naut fjarkennslu tíu kennara við FSu.     

Allt skólaárið er verið að innrita nemendur og þreyta þeir próf þegar þeir teljast próftækir í viðkomandi áfanga.   Á sama hátt eru nemendur líka að losna úr fangelsunum áður en önnum lýkur og er þá reynt að taka þá til prófs áður en þeir losna, en í undantekningartilvikum þreyta þeir próf á Selfossi að lokinni afplánun.

Einkunnadreifing, þar sem nemendur skiluðu sér til prófs, var eftirfarandi:

Einkunn

10

  9

8

  7

6

5

4

3

2

1

Fjöldi   5 14 9 25 6 3 4 1 1 0

Af þessum tölum má ráða, að nemendur í fangelsum eru almennt ekki að þreyta próf nema þeir hafi tileinkað sér námsefnið allvel.  Einnig er ljóst orðið, að sú ákvörðun að taka nemendur inn í skólann nánast alla önnina er að skila sér í stöðnum einingum. 


Senda grein