Fréttir

Fangelsið Sogni tveggja ára

23.4.2014

Rekstur Fangelsisins Sogni hófst 18. apríl 2012 þegar opið úrræði á vegum Fangelsismálastofnunar var flutt frá Fangelsinu Bitru í Flóahreppi að Sogni í Ölfusi en fyrr um veturinn hafði Réttargeðdeildin sem var staðsett á Sogni verið flutt til Reykjavíkur.  Fangelsið Sogni var svo vígt formlega  1.  júní 2012.

Á Sogni er pláss fyrir 20 fanga. Sogn er skilgreint sem opið fangelsi. Við val á því hvaða fangar vistast í opnum fangelsum er m.a. horft til aldurs þeirra, hvort þeir eru taldir hæfir til vistunar í opnu úrræði, að þeir séu að búa sig undir að ljúka refsivist, séu ekki háðir vanabindandi lyfjum, að þeir stundi vinnu eða nám og séu reiðubúnir til að taka virkan þátt í starfsemi fangelsisins. Miðað er við að vistun í Fangelsinu Sogni geti að hámarki verið tvö ár.

Takmörkun á vinnuúrræðum hefur ýtt undir áherslu á menntun og á Sogni hafa um 60-70% þeirra fanga sem þar hafa vistast verið í námi, bæði á framhaldsskólastigi sem og háskólastigi. Aðstaða til náms er góð, fjarfundarbúnaður er til staðar vegna fjarnáms við háskóla og kennarar frá Fjölbrautarskóla Suðurlands, FSu, koma þrjá morgna og einn eftirmiðdag í viku en auk þess koma kennslustjóri og námsráðgjafi einu sinni í viku.

Á Sogni starfa tveir fangar í eldhúsi við matseld, fimm fangar sinna ræstingu á húsnæði, þar að auki sinna fangar hænsnum og störfum í matjurtagarði, gróðurhúsi og bleikjueldi yfir sumartímann ásamt viðhaldi á fasteignum og lóð. Fangar hafa einnig sinnt verkefnum, á vegum fangelsisins, utan þess í nágrenninu. Fangar sinna einnig utanaðkomandi verkefnum innan fangelsisins s.s. pökkun fjölpósts o.fl.

Sérfræðingar Fangelsismálastofnunar, sálfræðingur og félagsráðgjafi koma einu sinni í mánuði auk þess sem fangaprestur kemur reglulega. Starfandi meðferðarfulltrúar Litla Hrauns koma vikulega á Sogn.

Sjá myndir frá Sogni.

 

 

Senda grein