Fréttir

Niðurstöður samkeppni um listskreytingar á Hólmsheiði kynntar í dag.

5.6.2013

Fyrstu verðlaun hlutu Anna Hallin og Olga S. Bergmann fyrir tilllöguna Arboretum - trjásafn. Þetta margþætta listaverk samanstendur af þyrpingu níu tegunda trjáa sem staðsett verða í aðkomugarði fangelsisins. Gert er ráð fyrir "fuglahóteli" með tilheyrandi fuglahúsum sem unnin verða í samvinnu við trésmíðaverkstæðið á Litla-Hrauni. Lagt er til að vefmyndavélum verði komið fyrir í einhverjum af fuglahúsunum svo hægt verði að fylgjast með atferli fuglanna á skjá í bókasafni fangelsisins. Í sjónsteyptum veggbútum í útivistargörðum fangelsisins er svo gert ráð fyrir fræstum teikningum af flugmynstri fugla sem sækja þessar lendur. Dómnefndin sagði verkið falla vel að umhverfi og hugmyndafræði fangelsisins, hafa listrænt og fagurfræðilegt gildi og væri innan kostnaðarviðmiða. Sjá nánar.

Önnur verðlaun hlaut Kristinn E. Hrafnsson fyrir verkið "Fuglahús" en það gerir ráð fyrir 28 fuglahúsum og 10 fuglaböðum og gjafastöndum víðsvegar í inni- og útigörðum fangelsisins. 

Þriðju verðlaun hlaut Brynhildur Þorgeirsdóttir fyrir verkið "Að flytja fjöll" sem er keilulagaður skúlptúr úr 12 steinsteyptum einingum.

Fyrstu verðlaun voru 500.000 kr., önnur verðlaun 300.000 kr. og þriðju verðlaun 200.000 kr.

Samkeppnin var opin samkeppni um listskreytingar í fangelsi á Hólmsheiði en listskreytingar eru lögbundinn hluti opinberra bygginga og því var efnt til samkeppninnar í mars 2013.

Samkeppnin var auglýst í dagblöðum og á heimasíðum innanríkisráðuneytisins, Sambands islenskra myndlistarmanna (SÍM), Fangelsismálastofnunar ríkisins og Framkvæmdasýslu ríkisins. Samkeppnin var opin öllum sem uppfylltu skilyrði samkeppnislýsingar. Samkeppnisgögn voru afhent 25. mars 2013. Skilafrestur tillagna var til 17. maí 2013. Alls bárust 13 tillögur og voru 12 þeirra metnar en ein tillaga uppfyllti ekki samkeppnisskilmála og var því ekki metin af dómnefnd. 

Dómnefnd skipuðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneyti, formaður dómnefndar, Guðrún Edda Guðmundsdóttir, lögfræðingur, Fangelsismálastofnun, Björn Guðbrandsson, arkitekt, Arkís arkitektum ehf., Þóra Sigurðardóttir, myndlistarmaður, Jón Bergmann Kjartansson Ransu, myndlistarmaður. Ritari dómnefndar, verkefnastjóri samkeppnisferilsins og trúnaðar- og umsjónarmaður var Örn Baldursson, verkefnastjóri FAÍ, Framkvæmdasýslu ríkisins. Sérstakir ráðgjafar dómnefndar voru Halldór Valur Pálsson, sérfræðingur, Fangelsismálastofnun, Arnór Þ. Sigfússon, dýravistfræðingur Ph.D., Verkís hf. og Örn Baldursson, verkefnastjóri/arkitekt FAÍ, Framkvæmdasýslu ríkisins.

Senda grein