Fréttir

Góður námsárangur fanga í Fangelsinu Litla-Hrauni og á Sogni.

1.6.2013

Enn halda vistmenn í fangelsum áfram að sækjast eftir menntun meðan á afplánun stendur. Aldrei fyrr hefur annar eins fjöldi verið innritaður í nám í Fangelsinu Litla-Hrauni og á Sogni eins og á þessari önn eða samtals 66 manns. Af þeim stunduðu sex háskólanám við þrjá háskóla hérlendis og var einn sexmenninganna auk þess skráður í einn áfanga við FSu á Litla-Hrauni. Einn vistmaður hóf fjarnám við annan íslenskan framhaldsskóla en FSu og annar var í fjarnámi frá stofnun á meginlandi Evrópu.

 

Af þeim 46 nemendum, sem innrituðust í eitthvert nám á vegum FSu á Litla-Hrauni, luku 22 samtals 96 einingum af þeirri 101 sem þeir lögðu undir.

Í Fangelsinu Sogni voru samtals 13 nemendur innritaðir í eitthvert nám á vegum FSu og þar var lokið samtals 66 einingum en þrír þeirra nemenda, sem þar höfðu innritast, luku engum prófum.

Rétt er að geta þess hér, að verið er að innrita nemendur alla önnina og þreyta þeir próf, þegar þeir teljast próftækir í viðkomandi áfanga.   Á sama hátt eru nemendur líka að losna úr fangelsunum áður en önninni lýkur og er þá reynt að taka þá til prófs áður en þeir losna, en í undantekningartilvikum þreyta þeir próf á Selfossi að lokinni afplánun.

Almennt var námsárangur góður hjá þeim sem luku áföngum.  Á einkunnablöðum nemenda á Litla-Hrauni mátti tuttugu og einu sinni sjá einkunnina 8, tíu sinnum einkunnina 9, níu sinnum einkunnina 7, þrisvar sinnum einkunnina 10, en aðeins einu sinni einkunnirnar 6, 4 og 2.  Aðrar einkunnir sáust ekki.

Á Sogni var útkoman ekki lakari.  Þar var algengasta einkunnin 9 eða í átta tilvikum, einkunnin 8 sást þar sex sinnum og tíurnar voru fjórar.  Fimm sinnum sást þar einkunnin 7, tvisvar sinnum talan 6 - raunar jafn oft og talan 3, en einkunnina 4 gat aðeins einu sinni að líta.

Samtals sinntu fjórir kennarar frá FSu staðbundinni kennslu á Sogni. Þar að auki komu kennslustjóri í fangelsunum báðum og Anna Fríða Bjarnadóttir, náms- og starfsráðgjafi, þangað einu sinni í viku hvort.  Á Litla-Hrauni sinntu fimm kennarar við FSu staðbundinni kennslu auk kennslustjóra en þar hefur áðurnefndur náms- og starfsráðgjafi einnig sína starfsaðstöðu.

Auk ofangreindra komu 11 FSu-kennarar að fjarnámi í samtals 17 áföngum í fangelsunum báðum og sá tólfti fór fimm sinnum á önninni að Litla-Hrauni til að segja fjórum nemendum til í grunnteikningu.

Senda grein