Fyrsta skóflustunga að nýju fangelsi á Hólmsheiði tekin 4. apríl 2013
Í gær 4. apríl 2013 tók Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fyrstu skóflustunguna að nýju fangelsi á höfuborgarsvæðinu. Fjöldi gesta var viðstaddur þennan merka áfanga í fangelsissögu landsins en stefnt hefur verið að því að byggja fangelsi á höfuðborgarsvæðinu í tugi ára.
Innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson og forstjóri fangelsismálastofnunar, Páll E. Winkel fluttu ávörp. Formaður verkefnisstjórnar um byggingu nýs fangelsis, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, stýrði athöfninni. Sjá nánar.
Nýja fangelsið verður móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Fangarými verða 56 og þar verður sérstök deild fyrir kvenfanga og aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Hönnun fangelsisins er með þeim hætti að hægt verður að stækka og minnka fangadeildir eftir þörfum sem gera mun nýtingu fangelsisins betri. Öll aðstaða fanga svo sem fyrir vinnu, nám, íþróttaiðkun og síðast en ekki síst aðstaða til heimsókna verður til fyrirmyndar.
Nýja fangelsið mun leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík, sem starfrækt hefur verið í 140 ár, og Fangelsið Kópavogsbraut 17 en hvorugt fangelsið uppfyllir nútímakröfur um fangavist. Þá verður gæsluvarðhaldsdeild í Fangelsinu Litla-Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun.
Jarðvegsframkvæmdir á Hólmsheiði hefjast í næstu viku en útboð vegna byggingarinnar sjálfrar fer fram í vor. Stefnt er að því að taka fangelsið í notkun haustið 2015.
Auglýst hefur verið opin samkeppni um listskreytingar í fangelsinu samkvæmt lögum um opinberar byggingar og er skilafrestur til kl. 15 föstudaginn 17. maí. Markmiðið með samkeppninni er að fá tillögur um listskreytingu fangelsisins.
Umsjón með verkefninu hefur Framkvæmdasýsla ríkisins, verkefnastjóri FSR er Örn Baldursson. Aðalhönnuður er Arkís arkitektar ehf. sem hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni árið 2012, höfundar vinningstillögunnar voru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar.
Á verkefniskynningu FSR er fjallað nánar um verkefnið.