Ákveðið hefur verið að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði og endurbæta aðstöðu á Litla-Hrauni
Í fjárlögum fyrir árið 2012 sem afgreidd voru frá Alþingi í gær var ákveðið að verja 190 milljónum króna til hönnunar á nýju gæsluvarðhalds-, móttöku- og kvennafangelsi. Heildarkostnaður við hönnunina er áætlaður 220 milljónir króna og reiknað með að 30 milljóna kr. hluti þeirrar fjárhæðar verði varið til samkeppni arkitekta um hönnun fangelsisins.
Frumteikningar að nýju fangelsi á Hólmsheiði
Gert er ráð fyrir að í framhaldinu muni hönnun byggingarinnar kosta 170 m.kr. og að skipting þess kostnaðar verði til helminga milli arkitekta og verkfræðinga. Einnig er reiknað með 20 milljóna kr. kostnaði við umsjón Framkvæmdasýslu ríkisins með verkefninu.
Þá var ákveðið að veita 55 milljónum króna á næsta ári til öryggismála í fangelsum. Af framlaginu renni 5 milljónir til Hegningarhússins og Fangelsisins Kópavogsbraut 17 og 50 milljónir króna til Fangelsisins Litla-Hrauni. Er það fyrsti liðurinn í áætlun um endurbætur og uppbyggingu öryggisfangelsis þar í samræmi við skýrslu nefndar um framtíðarrekstur fangelsisins frá október 2007. Meðal þess brýnt er að setja upp á Litla-Hrauni eru leitarskanni, leitarhlið og betri aðstaða til að leita á gestum og í farangri. Einnig þarf að endurnýja ýmsan búnað eins og girðingar og öryggismyndavélar. Hugsanlega verður byggt við fangelsið í þessum tilgangi.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði við atkvæðagreiðslu um fjárlögin á Alþingi að gert væri ráð fyrir að framkvæmdir við nýtt fangelsi hæfust í árslok. Gengi allt að óskum yrði fangelsið tekið í notkun í árslok 2014.
„Nú er okkur að takast að setja niður deilur sem staðið hafa samfleytt í hálfa öld um nýja fangelsisbyggingu fyrir landsmenn. Þessar deilur er nú verið að setja niður,“ sagði Ögmundur og síðar að því bæri að fagna. Hann sagði að allri hönnunar- og tæknivinnu í tengslum við fangelsið yrði lokið á þessu ári og framkvæmdir gætu þá hafist.
Hvað varðaði fjármögnun fangelsisins og hver borgaði brúsann sagði Ögmundur: “Það gerum við, íslenskir skattgreiðendur.”
Fangelsismálastofnun fagnar þessari ákvörðun.