Ísland kemur vel út í samanburði um endurkomur afbrotamanna
Í almennri umræðu er því oft haldið fram að mikill meirihluti þeirra sem afplána refsingu í fangelsum brjóti af sér á ný og komi fljótlega til afplánunar aftur.
Samkvæmt nýrri norrænni samanburðarrannsókn kemur í fyrsta lagi fram að þessu er ekki þannig farið og í öðru lagi að Ísland kemur mjög vel út í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að hlutfallslegur fjöldi fanga hér á landi hefur verið talsvert lægri en á hinum Norðurlöndunum. Á Íslandi eru nú um 50 fangar á hverja 100.000 íbúa en á hinum Norðurlöndunum eru þeir um 70.
Kostnaður við hvern fanga á ári hér á landi er um kr. 8.800.000. Af þessu má sjá að mjög þýðingarmikið er að endurkomur séu í lágmarki.
Þessi samanburðarrannsókn er árangur af áralangri samvinnu sérfræðinga frá öllum Norðurlöndunum fimm og voru endurkomur mældar á sama hátt í öllum löndunum.
Rannsóknin mælir í fyrsta lagi hversu margir af þeim sem látnir voru lausir eftir afplánun fangelsisrefsingar árið 2005 höfðu fengið nýjan slíkan refsidóm innan tveggja ára og í öðru lagi hversu margir af þeim sem hófu samfélagsþjónustu það sama ár höfðu fengið nýjan fangelsisdóm innan tveggja ára.
Tafla sem sýnir helstu niðurstöður:
|
Danmörk |
Finnland |
Ísland |
Noregur |
Svíþjóð
|
|
% |
% |
% |
% |
% |
Luku afplánun fangelsisrefsinga |
29 |
36 |
27 |
20 |
43 |
Hófu afplánun með samfélagsþjónustu eða öðrum úrræðum utan fangelsa |
22 |
25 |
16 |
21 |
20 |
Samtals |
26 |
31 |
24 |
20 |
30 |
Taflan sýnir að yfir heildina hefur Noregur fæstar endurkomur eða 20%, en þar á eftir kemur Ísland með 24%. Ennfremur sýnir taflan að Ísland er með bestu útkomuna í hópnum sem afplánar refsingu með samfélagsþjónustu eða sambærilegum úrræðum, þar eru endurkomur aðeins 16% en um og yfir 20% í hinum löndunum. Af þeim sem látnir eru lausir eftir afplánun óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga er endurkomuhlutfallið næst lægst á Íslandi eða 27%. Finnland og Svíþjóð koma almennt séð verst út úr þessum samanburði en Noregur og Ísland best.
Rannsóknin markar ákveðin tímamót að því leyti að slíkur samanburður hefur ekki áður verið gerður enda um mjög vandasamt verk að ræða.
Erfitt er að útskýra þann mikla mun sem er á endurkomum þeirra sem látnir eru lausir eftir að hafa afplánað fangelsisrefsingu. Það skal tekið fram að ekki er eingöngu hægt að túlka niðurstöðurnar þannig að framkvæmd fullnustu refsinga sé eitthvað lakari t.d. í Svíþjóð og Finnlandi en hinum löndunum eða þá að verr sé búið að föngum í þessum löndum. Hluti skýringarinnar er væntanlega sá að fangahóparnir á Norðurlöndum eru misjafnlega samsettir. Þannig er t.d. hærra hlutfall fanga í norskum fangelsum inni fyrir umferðarlagabrot en í öðrum löndum. Þessi hópur kemur síður aftur og endurkomuhlutfallið er því lægra. Stærð fangelsa og gerð, framkvæmd refsinga, starfsfólk, meðferðarmöguleikar o.fl. hefur að sjálfsögðu einnig áhrif hvað þetta varðar.
Fjölmargar aðrar niðurstöður koma fram í rannsókninni. Dómþolar eru flokkaðir m.a. eftir kyni, aldri, brotum og sakaferli svo nokkuð sé nefnt. Einnig var rannsakað hvaða hópar brotamanna eru líklegastir til þess að hljóta dóm að nýju á viðmiðunartímabilinu. Nefna má að í öllum löndum er niðurstaðan sú að kynferðisbrotamenn eru ólíklegastir til þess að vera dæmdir að nýju eða í 0-11% tilvika (0 á Íslandi) en þeir sem dæmdir eru fyrir þjófnaðarbrot koma oftast aftur eða í 39-61% tilvika (44% á Íslandi).
Rannsóknin leiðir líka í ljós að þeir sem eru dæmdir fyrir kynferðisbrot, ofbeldisbrot og fíkniefnabrot koma mun sjaldnar aftur heldur en þeir sem dæmdir hafa verið fyrir þjófnað og umferðarlagabrot.
Þá kemur í ljós að þeir sem koma aftur koma oftast ekki inn aftur fyrir sama afbrot. T.d. má nefna að enginn dæmdur ofbeldismaður í íslenska úrtakinu hlaut nýjan dóm fyrir ofbeldisbrot á viðmiðunartímabilinu.
Að lokum skal þess getið að hér er um samanburðarrannsókn að ræða en ekki neina allsherjar mælistiku á refsifullnustu þessara landa. Niðurstöðurnar eru hins vegar allrar athygli verðar og geta hjálpað okkur við að meta stöðuna hér á landi og gefa vísbendingu um hvert beri að stefna í framtíðinni.