Fréttir
  • Utskriftarnemar_2010_asamt_Gudmundi_Gislasyni_skolastjora_og_Pali_E._Winkel_forstjora

Útskrift úr Fangavarðaskólanum 2010

28.4.2010

Útskrift Fangavarðaskólans fór fram 16. apríl síðastliðinn. Níu nemendur sóttu skólann að þessu sinni og stóðu sig með prýði. Kennslan fór sem fyrr fram í húsnæði Lögregluskólans að Krókhálsi 5b, Reykjavík. Alls komu 16 kennarar og leiðbeinendur að kennslunni og er þeim og öðrum sem lögðu hönd á plóg þakkað samstarfið. Útskriftarnemar 2010 ásamt Guðmundi Gíslasyni skólastjóra og Páli E. Winkel forstjóra

Útskriftarnemar 2010 ásamt Aðalheiði Dröfn E. verkefnisstjóraMeðaleinkunn hópsins var góð eða 8,0. Besta árangri á lokaprófum náði Ingvar Sigurðsson, fangavörður við Fangelsið Litla-Hrauni, með meðaleinkunnina 8,60 og var honum afhent viðurkenning fyrir góðan námsárangur. Að útskrift lokinni héldu nemendur til Kaupmannahafnar í kynnisferð í tvö dönsk fangelsi og fengu til þess styrk frá Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Fangelsismálastofnun og starfsmannafélagi Ríkisstofnana.

Fangavarðaskólinn, sem starfræktur er á grundvelli reglugerðar nr. 347/2007, var að þessu sinni með nokkuð breyttu sniði vegna erfiðra ytri aðstæðna. Þegar fjárhagskreppan skall á 2008 og sýnt var að Fangelsismálastofnun, eins og aðrar opinberar stofnanir, þyrfti að skera niður útgjöld, var sú ákvörðun, meðal annarra, tekin að fella niður skólahald. Töluverð endurnýjun hefur átt sér stað í stétt fangavarða og var svo komið að um fjórðungur starfsmanna hafði ekki lokið starfsnámi.  Því var ákveðið að halda fangavarðaskóla 2010 en námstíminn styttur töluvert í sparnaðarskyni.  Í stað tveggja anna var skólatíminn samfelld 13 vikna önn með heldur meiri tímasókn dag hvern og verkefnaskilum, sem áður hafa tilheyrt seinni önn, auk hefðbundinna skriflegra og verklegra prófa.  Nemendur stóðu sig með prýði þrátt fyrir svo stuttan skólatíma sem að mati kennara og nemenda er of stuttur til að gera námsefni og verkefnum nægilega góð skil.



Senda grein