Fréttir

Samstarfssamningur um skönnun Ljósmyndasafns Siglufjarðar undirritaður á Litla-Hrauni í dag

29.6.2009

Í dag klukkan 13.00 undirrituðu SKSigló og Fangelsið Litla-Hraun samstarfssamning til 6 mánaða þar sem unnið verður að skönnun Ljósmyndasafns Siglufjarðar sem er í eigu SKSigló og spannar um 400 þúsund ljósmyndir sem munu birtast á vef sigló.is www.siglo.is/myndasafn.

Sigríður María Róbertsdóttir f.h. SKSigló, Margrét Frímannsdóttir f.h. Litla-Hrauns og Jónas Ingi Ragnarsson f.h. vistmanna LH undirrita samstarfssamningHugmyndin kviknaði þegar einn aðstandandi fyrirtækisins, Róbert Guðfinnsson, sá viðtal við Margréti Frímannsdóttur þar sem fram kom að vandamál væri orðið að finna verkefni fyrir vistmenn Litla-Hrauns. Margréti Frímannsdóttur fannst mikið til koma þegar Róbert hafði samband við hana frá Phoenix í Bandaríkjunum aðeins örfáum klukkustundum eftir að fréttin kom í loftið. Henni fannst skönnun ljósmyndasafnsins vera kjörið verkefni fyrir Litla-Hraun og skapar það störf fyrir 4-5 vistmenn í 3 klukkustundir á dag á þessum 6 mánuðum.

Verkefnið er gríðarlega viðamikið en stefnt er að því að hægt verði að ljúka umsaminni skönnun á um 2 árum. Áætlað er að á því 6 mánaða tímabili sem samningur milli SKSigló og Litla-Hrauns er gerður verði hægt að skanna inn um 80 þúsund ljósmyndir. Verða myndirnar síðan unnar áfram í heimkynnum SKSigló í frumkvöðlasetri Rauðku á Siglufirði og loks birtar í myndasafni á http://siglo.is/is/myndasafn/ til að almenningur geti notið þeirra. Verkefnið mun því einnig skila 2-4 nýjum störfum í heimabyggð SKSigló næsta haust.

Til að verkið næði fram að ganga fjárfesti SKSigló í 2 tölvum og 2 nýjum skönnum. Í morgun fóru aðstandendur SKSigló síðan á Litla-Hraun og settu upp búnaðinn. Verkefnið fer þannig fram að vistmenn skanna myndirnar og taka öryggisafrit af þeim í lok hvers dags. Í lok hverrar viku er afrakstur vikunnar síðan sendur til Siglufjarðar til frekari vinnslu.

Þeir vistmenn sem koma að verkefninu aðstoðuðu við uppsetningu búnaðarins. Þeir voru mjög spenntir yfir verkefninu og að fræðast um uppruna safnsins. Verkefnið er kærkomið fyrir þá en lítið hefur verið að gera undanfarið eða frá því að framleiðsla á númeraplötum dróst saman og hætt var smíði glugga á Litla-Hrauni.

Verkefnið hefur vakið mikla athygli síðustu daga og meðal annars verið um það fjallað á RÚV og MBL. Við undirskriftina voru fréttamenn frá Sunnlennska Fréttablaðinu og Dagskránni ásamt því að fjallað verður um það í Morgunblaðinu á næstu dögum.

Velunnari Ljósmyndasafns Siglufjarðar, Arnold Bjarnason, er einn þeirra aðila sem gerir það kleift að hægt sé að vinna að skönnun ljósmyndasafnsins. Arnold er mikill vinur Siglufjarðar og hefur í gegnum tíðina gefið mikið af sér í firðinum. Meðal annars gaf hann þakjárnið á Siglufjarðarkirkju þegar skipt var um það árið 2007 en Sigló.is sagði frá þeirri frétt á sínum tíma og má sjá hana HÉR.



Senda grein