Ekki laust við að vegfarendum á Skólavörðustíg brygði í brún er rjúka tók úr þaki og gluggum Hegningarhússins
Brunaæfing var haldin í Hegningarhúsinu Skólavörðustíg í dag. Æfingin var samstarfsverkefni fangelsa á höfuðborgarsvæðinu, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Fangelsismálastofnunar.
Skipulag önnuðust Magnús Páll Ragnarsson, varðstjóri, fyrir fangelsið og Marteinn Geirsson fyrir slökkviliðið. Markmiðið var að öll atburðarás væri sem líkust því að um raunverulegan bruna væri að ræða. Fangelsið var fyllt af reyk (reykefni) með þar til gerðum tækjum slökkviliðs, fangaverðir æfðu skyndibjörgun fanga af klefum í samvinnu við þá fanga sem vistaðir eru í fangelsinu og reykkafarar slökkviliðsins gerðu reykköfunaræfingar í fangelsinu. Æfingin tókst mjög vel og var ekki laust við að vegfarendum á Skólavörðustíg brygði er rjúka tók úr þaki og gluggum Hegningarhússins og að þustu slökkviliðsbílar og lögregla lokaði götunni. Á samráðsfundi eftir æfinguna, þegar búið var að reykræsta fangelsið, lýstu þeir sem að æfingunni stóðu og þeir sem þátt tóku, yfir ánægju með það hversu æfingin gekk vel.
Fangelsismálastofnun þakkar gott samstarf við lögreglu og slökkvilið í þessu verkefni sem öðrum.