Ruslafata sem varð að uppreisn
Í gær var kveikt í ruslafötu í klefa í Fangelsinu Litla-Hrauni. Fréttavefurinn DV færði fréttir af atburðinum með nokkurra mínútna millibili. Samkvæmt DV var uppreisnar- og óeirðaástand í fangelsinu og mátti skilja fréttirnar á þann veg að allt væri farið böndunum úr og fangar og fangaverðir í hættu. Þetta er ekki rétt.
Umfjöllun sem þessi er tillitslaus þar sem fangar eiga eins og aðrir ástvini og aðstandendur sem eðlilega bregður mjög við slíkar fréttir. Aðstandendur fanga geta ekki haft beint samband við þá eðli máls samkvæmt. Því þurftu þeir að bíða nokkurn tíma uns þeir fengu réttar upplýsingar um stöðu mála og biðu því milli vonar og ótta um hvort föngum á Litla-Hrauni væri óhætt.
Vissulega er alvarlegt að fangi kveiki í ruslafötu á klefa sínum en fangaverðir slökktu eldinn og unnu óaðfinnanlegt starf. Samkvæmt vinnureglu var slökkvilið kallað til. Þá skal tekið fram að hegðun flestra fanga í Fangelsinu Litla-Hrauni er til fyrirmyndar og starfsemi í fangelsinu með hefðbundnum hætti.