Fréttir

Athugasemd við umfjöllun um málefni fanga sem birtist í Morgunblaðinu 18. janúar 2009

27.1.2009

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 18. janúar sl. er ítarleg umfjöllun um málefni fangans Birgis Páls Marteinssonar. Aðalfyrirsögnin, sem nær yfir tvær síður er: “Á þetta bara að vera refsivist?”

Sök í málinu, lengd refsingarinnar og einangrunarvist erlendis verður ekki fjallað um hér. Íslensk yfirvöld samþykktu hins vegar strax og um það var beðið að framangreindur aðili fengi að afplána 7 ára fangelsisrefsinguna hér á landi.

Fangelsið og starfsfólk þess hefur frá upphafi gert allt sem hægt var til þess að létta fanganum lífið og aðstoða hann við námið, þ.m.t. að veita honum aukinn aðgang að interneti sem þó er undir eftirliti. Fyrirsögnin andar því köldu í garð þeirra sem að málum koma á Litla-Hrauni.

Tveir félagsráðgjafar, tveir sálfræðingar og fleira fagfólk heimsækja fangelsið reglulega í viku hverri. Fangaverðir hafa hlotið mikla þjálfun vegna starfs síns. Þar er unnið mikið meðferðarstarf og í boði er tómstundastarf, líkamsrækt, nám, vinna og ýmis námskeið svo nokkuð sé nefnt. Stefna fangelsisfirvalda er í stuttu máli sú að gera föngum kleift að rækta garðinn sinn. Sérstaklega hefur verið hugað að námi fanga hvað þetta varðar og í ágúst sl. var sérstakur námsráðgjafi ráðinn til starfa.

Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að fangelsi er fangelsi og þeir sem þar dvelja gegn vilja sínum kvarta eðilega oft undan þeim takmörkunum sem ávallt hljóta að vera til staðar á slíkum stöðum. Ekki er heldur unnt að vista nema lítinn hluta fanga í opnu fangelsi á Kvíabryggju þó svo að þeir uppfylli skilyrði þar að lútandi.

Haft er eftir Brynjari Níelssyni hrl. að viðkomandi fangi eigi ekki heima á Litla-Hrauni. Hver á heima á Litla Hrauni? Ekkert er óeðlilegt við það að maður sem orðinn er 26 ára gamall og dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot vistist tímabundið í aðal fangelsi landsins. Fangelsi landsins eru ekki bara refsivist þau eru hins vegar fangelsi.

 

Erlendur S. Baldursson

afbrotafræðingur

Fangelsismálastofnun ríkisins



Senda grein