Fréttir

Jólahátíðin með hefðbundnu sniði í fangelsunum

29.12.2008

Jólahátíðin var með hefðbundnu sniði í fangelsum ríkisins. Margir leggja hönd á plóg til að létta föngum lundina yfir hátíðina og má þar m.a. nefna Félagasamtökin Vernd sem um árabil hafa sent föngum jólagjafir og Bubba sem hefur haldið tónleika á Litla-Hrauni frá árinu 1981.

Sr. Hreinn Hákonarson messaði í Fangelsinu Litla-Hrauni og í fangelsunum á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag jóla. Með honum í för var Ármann Hákon Gunnarsson, djákni, sem spilaði á gítar. Í Fangelsinu Kvíabryggju stóð sóknarpresturinn í Grundarfirði, sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, fyrir helgistund, ásamt fjórum Lionsmönnum og lækninum. Kafteinn Sigurður Ingimarsson o.fl. frá Hjálpræðishernum spiluðu fyrir fanga í Fangelsinu Akureyri og færðu þeim gjafir.

Bubbi mætti að venju á Litla-Hraun á aðfangadag til að spila fyrir fanga en hann hefur haldið þar tónleika frá árinu 1981. Nú mætti hann ásamt hljómsveitinni Egó, Ragnheiði Gröndal og Guðmundi Péturssyni, gítarleikara og var góður rómur gerður að tónleikunum, sjá nánar: http://www.visir.is/article/20081223/LIFID01/776357362.

Fangelsismálastofnun þakkar þeim sem að málum hafa komið.

 



Senda grein