Fréttir

Nordisk statistikk

4.7.2008

Út er komin skýrsla fangelsismálastofnana á Norðurlöndunum: Nordisk statistikk for kriminalomsorgen i Danmark, Finland, Island, Norge og Sverige 2002 – 2006. Þetta er í annað skipti sem Ísland tekur þátt í samvinnuverkefni þessu.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að samanlagt hófu 35.368 dómþolar afplánun á árinu 2006 sem er 14% aukning frá 2002. Miðað við fólksfjölda eru þessar breytingar fremur litlar.

Fullnusta refsinga utan fangelsis er þýðingarmikill þáttur á öllum Norðurlöndunum og hefur þessi þáttur aukist í öllum löndunum nema í Finnlandi. Hér er aðallega um að ræða samfélagsþjónustu, skilorðsbundnar reynslulausnir og önnur skilorðsbundin viðurlög. Í Svíþjóð hefur þeim sem afplána undir rafrænu eftirliti fjölgað um 52% á viðmiðunartímabilinu, en Svíar hafa tekið upp þá nýbreytni að losa menn fyrr út með því skilyrði að vera undir rafrænu eftirliti og hefur það áhrif á fangafjöldann til lækkunar. Noregur og Danmörk hafa í dag hafið fullnustu með rafrænu eftirliti en Finnar og Íslendingar ekki.

Fram kemur að meðaltalsfjöldi fanga á hverja 100.000 íbúa hefur aukist um 15% á Norðurlöndunum á viðmiðunartímanum en hefur þó ekki breyst að ráði milli áranna 2005 og 2006. Fangafjöldinn í Danmörku og Finnlandi lækkar á árinu 2006 en hækkar í Noregi og lítillega í Svíþjóð. Ísland er með lang lægsta fangafjöldann á Norðurlöndunum eða 48 fanga per 100.000 íbúa1) og hefur hann verið svipaður á tímabilinu. Á hinum Norðurlöndunum er fangafjöldi á hverja 100.00 íbúa frá 71 - 79. Hlutfall gæsluvarðhaldsfanga af heildarfangafjölda er lægst á Íslandi og í Finnlandi eða 12% og 13%, en í Svíþjóð er rúmlega fimmti hver fangi gæsluvarðhaldsfangi.

Fjölmargar aðrar áhugaverðar upplýsingar er að finna í skýrslunni sem hér er birt í heild sinni.

­____________________________________________

1) Í skýrslunni er miðað við íbúafjölda í upphafi árs. Vakin skal athygli á því að í ársskýrslum Fangelsismálastofnunar er miðað við íbúafjölda 1. desember ár hvert.



Senda grein