Fréttir

Fangavörður og fíkniefnaleitarhundur útskrifast af grunnnámskeiði sem haldið var fyrir fíkniefnaleitarhunda og þjálfara þeirra í Lögregluskóla ríkisins

19.5.2008

Föstudaginn sl. útskrifaðist Elín Ósk Þórisdóttir, fangavörður og hundaþjálfari, af grunnnámskeiði fíkniefnaleitarhunda og þjálfara þeirra með góða einkunn. Hundurinn Amiga bætist því í hóp vel þjálfaðra fíkniefnaleitarhunda í landinu.

Námskeiðið tók fjórar vikur og var blanda af bóklegri kennslu og verklegum æfingum. Á námskeiðinu lærðu og æfðu teymi hundaþjálfara og fíkniefnaleitarhunda leit að fíkniefnum við fjölbreyttar aðstæður, m.a. í bifreiðum, íbúðarhúsum, vöruhúsum, skipum, í pósti, farangri og úti á víðavangi. Auk þess fór fram kennsla í hegðunar- og atferlisfræði hunda, leitartækni, þjálfunarfræði, skyndihjálp og þrekþjálfun. Námskeiðinu lauk með bóklegu og verklegu prófi en kröfur sem gerðar eru til teymanna eru með þeim strangari sem þekkjast.

Elin_Osk_Torisdottir_fangavordur_og_Amiga_fikniefnaleitarhundur_a_Litla-HrauniÍ fyrsta sinn eru tveir þjálfaðir fíkniefna-leitarhundar í Fangelsinu Litla-Hrauni en fyrirhugað er að nýta hundana í öðrum fangelsum ríkisins.

”Fjölgun fíkniefnaleitarhunda í fangelsum, breyttar reglur um heimsóknir til fanga og aukið eftirlit með munum sem berast í fangelsi eru mikilvægir þættir í markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir streymi fíkniefna inn í fangelsi.  Vissulega er samhliða brýnt að draga úr eftirspurn eftir fíkniefnum í fangelsum en m.a. vegna þess hefur verið tryggður rekstrargrundvöllur meðferðar-gangs í Fangelsinu Litla-Hrauni.” segir Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar.

 

Fangelsismálastofnun óskar Elínu Ósk til hamingju með góðan árangur á námskeiðinu.



Senda grein