Útskrift úr grunnnámi Fangavarðaskólans 2008
Nemendur Fangavarðaskólans luku prófum 7. maí síðastliðinn og voru útskrifaðir úr grunnnámi eða fyrri önn skólans föstudaginn 9. maí síðastliðinn. Skólinn var starfræktur á grundvelli reglugerðar um menntun fangavarða nr. 347/2007.
Þetta er í annað sinn sem Fangavarðaskólinn starfar samkvæmt tillögum nefndar sem dómsmálaráðherra skipaði árið 2005 og skilaði skýrslu sama ár um menntun og þjálfun fangavarða. Skólinn hefur aðstöðu í húsnæði Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi 5b og nýtur starfskrafta nokkurra kennara Lögregluskólans auk annarra kennara úr fangelsiskerfinu og víðar að. Samtals var kennt á þessari önn í 17 vikur, frá 16. janúar til 9. maí. Kennslustundir voru 540 talsins og alls komu 18 kennarar og leiðbeinendur að kennslu við skólann. Lögð var áhersla á að tengja námið markmiðum og framtíðarsýn fangelsisyfirvalda, bæði með bóklegum greinum og verklegum æfingum.
Níu nemendur útskrifuðust úr grunnnáminu að þessu sinni. Hæstu meðaleinkunn hlaut Haukur Örn Jónsson, fangavörður við Fangelsið Litla-Hrauni og var honum afhent gjöf frá skólanum af því tilefni. Lögregluskólanum, starfsfólki hans, kennurum öllum og nemendum er þakkað gott samstarf.