Nýr stofnanasamningur milli Fangelsismálastofnunar og SFR f.h. fangavarða undirritaður 11. maí 2007
Hinn 11. maí 2007 var undirritaður nýr stofnanasamningur milli Fangelsismálastofnunar og SFR um forsendur og reglur um röðun starfaflokka fangavarða. Fangaverðir hækka samkvæmt samningnum um 4 launaflokka frá 1. maí 2007 og um 2 launaflokka til viðbótar 1. desember nk.
Samningurinn var unnin með ákveðnar forsendur í huga og eru samningsaðilar m.a. sammála um eftirfarandi markmið með stofnanasamningnum:
- Að styrkja fagmennsku í starfi starfsmanna fangelsa til að mæta auknum kröfum sem gerðar eru til þeirra samkvæmt lögum um fullnustu refsinga, Evrópskum fangelsisreglum og reglugerð um menntun fangavarða. Í því felst meðal annars að starfsfólk fangelsa ber ekki aðeins ábyrgð á gæslu fanga heldur einnig á aðgæslu og mannlegum samskiptum sem lið í undirbúningi að því að fangi megi lifa án afbrota eftir að fangavist lýkur.
- Að launakerfið endurspegli breyttar áherslur samkvæmt a. lið og auknar menntunarkröfur sem gerðar eru til starfsfólks fangelsa.
- Að launakerfið sé til þess fallið að laða að hæfileikaríkt fólk til að sinna því vandasama en þýðingarmikla starfi sem unnið er í fangelsum.
- Að launakerfið sé sveigjanlegt og að ákvarðanir um launaröðun séu teknar með málefnalegum og gagnsæjum hætti.
- Að auka möguleika fangavarða á flutningi mill starfaflokka og að launakerfið feli í sér tækifæri fyrir starfsmenn til áhrifa á framgang í starfi.
- Að tekið sé tillit til jafnréttis- og fjölskyldusjónarmiða.
Um helmingur fangavarða hafði sagt upp starfi sínu og er búist við að þeir dragi uppsagnir sínar til baka að undanskildum þremur fangavörðum sem stofnunin féllst á að veita lausn frá embætti.