Út er komin rannsóknarskýrsla um menntun íslenskra fanga
Markmiðið með könnuninni er að afla upplýsinga um hvaða menntun fangar hafa, hvaða menntun þeir hafa hug á að afla sér, hvernig kennsla í fangelsinu kemur þeim fyrir sjónir og hvernig þeir haga námi sínu.
Spurningalistar voru lagðir fyrir alla fanga, 18 ára og eldri, sem sátu í íslenskum fangelsum dagana 10. október til 2. nóvember 2006 sem voru samtals 119. Svarhlutfall var um 66%. Niðurstöðurnar sem eru afar athyglisverðar sýna að rúmlega þriðjungur þeirra fanga sem tók þátt í könnuninni sagðist stunda nám í fangelsum landsins meðan á könnuninni stóð. Mun fleiri fangar sögðust hafa áhuga á að stunda nám meðan á afplánun stendur. Ýmsar ástæður voru tilgreindar hvers vegna þeir stunduðu ekki nám, m.a. ófullnægjandi aðgengi að upplýsingum um námsframboð ásamt erfiðum námsaðstæðum í fangelsum landsins. Langflestir þeirra sem sögðust stunda nám í fangelsi afplánuðu í Fangelsinu Litla-Hrauni. Sjá skýrsluna í heild.