Fréttir

Framkvæmdum flýtt við Fangelsið á Akureyri.

11.5.2007

Unnið er af krafti að uppbyggingu fangelsanna í samræmi við stefnumótun dóms- og kirkjumálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar.

Endurbætur á Kvíabryggju er í fullum gangi og er stefnt að því að þeim ljúki í haust. Fangelsismálastofnun hefur lagt áherslu á að fjölga fangaplássum við opnar aðstæður og fjölgar fangaplássum á Kvíabryggju eftir breytingar um átta og verða því samtals 22. Þá verður vinnuaðstaða fangavarða bætt og enn fremur bætt aðstaða fanga til að stunda framhaldsnám. Sjá verkefniskynningu á vef Framkvæmdasýslunnar

Framkvæmdir við Fangelsið Akureyri eru hafnar. Samkvæmt áætlun átti framkvæmdum að ljúka vorið 2008. Nú hefur verið samið um að flýta framkvæmdum þannig að þeim ljúki um næstu áramót. Af því tilefni hafa fangar verið fluttir þaðan nú þegar. Fangelsið verður algjörlega endurbyggt og verða fangarými þar tíu í stað átta nú. Komið verður upp aðstöðu fyrir kennslu, létta vinnu og líkamsrækt. Enn fremur verður komið upp heimsóknaraðstöðu sem ekki hefur verið til staðar í fangelsinu. Þá verður útiaðstaða bætt. Framkvæmdum á að vera lokið vorið 2008. Sjá verkefniskynningu á vef Framkvæmdasýslunnar.

Unnið er að heildaruppbyggingu Fangelsisins Litla-Hrauni og er hönnunarvinna í fullum gangi. Stefnt er að því að stækka fangelsið og endurbæta til muna. Byggt verður nýtt móttöku- og heimsóknarhús við núverandi inngönguhlið og verður allri umferð beint þar í gegn, gestum, starfsmönnum og föngum. Aðstaða starfsmanna verður mikið bætt. Þá verður vinnuaðstaða fanga aukin og bætt með stækkun á núverandi vinnuskálum. Eftir byggingu nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu verða gæsluvarðhaldsfangar í einangrun ekki vistaðir þar.

Unnið er að þarfagreiningu við nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og leggur Fangelsismálastofnun mikla áherslu á að vanda vel allan undirbúning við þann þátt. Í því felst að skilgreina sem best hlutverk hinna ýmsu deilda, markmið með rekstri þeirra, þá þjónustu sem það útheimtir og hvernig þessu verður best fyrir komið. Sjá nánari upplýsingar um uppbyggingu fangelsanna í 3. tölublaði vefrits dóms- og kirkjumálaráðuneytis á árinu 2007.

 



Senda grein