Nordisk statistikk
Út er komin skýrsla fangelsismálastofnana á Norðurlöndunum: Nordisk statistikk for kriminalomsorgen i Danmark, Finland, Island, Norge og Sverige 2001–2005. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í samvinnuverkefni þessu. Hér getur að líta enska útgáfu af skýrslunni: Nordic Statistics 2001 - 2005.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að þeim fjölgar sem hefja afplánun fangelsisrefsinga á öllum Norðurlöndunum. Samanlagt hóf 36.161 dómþoli afplánun1) á árinu 2005 sem samsvarar 16% aukningu síðan 2001. Ef miðað er við 100.000 íbúa 15 ára og eldri er fjöldi þeirra sem hefja afplánun að meðaltali nokkuð stöðugur eða tæplega 160 síðustu 3 ár tímabilsins, fæstir á Íslandi eða 90 og flestir í Danmörku eða 254. Skjólstæðingum fjölgar einnig sem sæta skilorðseftirliti á tímabilinu eða um 11%. Fjölgunin hefur orðið mest á Íslandi eða 30%, í Noregi 28%, Finnlandi og Svíþjóð 9% og Danmörku 8%. Í Finnlandi, Íslandi og Noregi stafar aukningin aðallega af fjölgun dómþola í samfélagsþjónustu en í Danmörku og Svíþjóð vegna reynslulausna.
Fram kemur að meðaltalsfjöldi fanga hefur aukist á Norðurlöndunum um ca. 19% síðan 2001 og voru alls 83 fangar á 100.000 íbúa á árinu 2005. Í Finnlandi var aukningin mest eða 24% en á Íslandi jókst fangatalan minnst á tímabilinu eða um 11%. Ísland er með lang lægsta fangafjöldann á Norðurlöndunum eða 47 fanga per 100.000 íbúa2). Á hinum Norðurlöndunum er fangafjöldi á hverja 100.00 íbúa frá 68 - 78. Hlutfall gæsluvarðhaldsfanga er lægst á Íslandi og í Finnlandi, 12% og 13% og hæst í Danmörku, 25%.
Í skýrslunni birtast tölur um nýtingu plássa, annars vegar í lokuðum fangelsum og hins vegar í opnum fangelsum, ásamt nýtingu gæsluvarðhaldsplássa. Að meðaltali var nýting fangelsisplássa á Norðurlöndunum 96-98%. Danmörk og Ísland nýta best Norðurlandanna pláss í opnum fangelsum eða 99% í Danmörku og 95% á Íslandi.
Í samhengi við hækkandi fangatölu hefur fjöldi starfsfólks fangelsanna dregist saman. Í Danmörku var hlutfallið næstum einn starfsmaður á hvern fanga á árinu 2005 en í Noregi og Svíþjóð var hlutfallið 0.95 og 0.91 starfsmaður á hvern fanga árið 2005. Ísland og Finnland skera sig úr í þessu samhengi með 0.73 og 0.74 starfsmenn á fanga árið 2005. Athyglisvert er hversu mikill munur er á fjölda starfsmanna við skilorðseftirlit en þar sker Ísland sig úr með aðeins 1 starfsmann á hverja 100 skjólstæðinga en Noregur trónir hæst með 12 starfsmenn á hverja 100 skjólstæðinga.
Fangaplássum hefur fjölgað jafnt og þétt á öllum Norðurlöndunum á tímabilinu, að Íslandi undanskildu, alls um tæplega 13% og er fjölgunin mest í Danmörku 16%, í Svíþjóð 15%, í Noregi 13% og í Finnlandi 6% og á Íslandi hefur engin fjölgun orðið.
____________________________________________
1) Í skýrslunni, bls. 14, er ranglega ritað 36.161 "fengselsdommer"; hér er átt við "innsettelser" eða upphaf afplánunar.
2) Í skýrslunni er miðað við íbúafjölda í upphafi árs. Vakin skal athygli á því að í ársskýrslum Fangelsismálastofnunar er miðað við íbúafjölda 1. desember ár hvert.