Fangavarðaskóli ríkisins settur
Fangavarðaskólinn var formlega settur í húsnæði Lögregluskólans að Krókhálsi 5 þann 17. janúar sl.
Nemendur skólans eru að þessu sinni 10 talsins, þar af ein kona. Sjö þeirra koma frá Fangelsinu Litla-Hrauni en þrír frá fangelsunum á höfuðborgarsvæðinu. Í setningarræðu forstjóra Fangelsismálastofnunar, Valtýs Sigurðssonar og í ávarpi skólastjórans, Guðmundar Gíslasonar, kom fram að skólinn verður rekinn með nokkuð breyttu sniði framvegis. Lýsir það sér m.a. í því að nánara samstarf verður við Lögregluskólann í ýmsum greinum og mun stundaskrá fangavarðarnema fylgja stundaskrá lögreglu-nema á grunnnámstímanum. Er það í samræmi við tillögur starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði vorið 2005 en starfshópnum var falið að kanna hvaða áhrif núverandi samsetning fangavarða, m.t.t. menntunar og aldurssamsetningar, hefði á framtíðarskipan fangelsismála í ljósi breyttra viðhorfa til menntunar fangavarða og setja fram tillögur um næstu skref. Dómsmálaráðherra féllst á tillögur nefndarinnar og fól Fangelsismálastofnun í samvinnu við Lögregluskóla ríkisins að vinna úr tillögunum með hliðsjón af því að gera rekstur skólans markvissari og kanna hvernig unnt væri að nýta samlegðaráhrif með því að starfrækja Fangavarðaskólann og Lögregluskólann á sama tímabili.
Nám fangavarða skiptist í þrjá hluta, 16 vikna grunnnám, 12 vikna starfsþjálfun og 6 vikna framhaldsnám sem að mestu snýst um að vinna raunhæft lokaverkefni sem tengist starfinu. Framangreindar tillögur um starfsnám fangavarða miðast við að leggja áherslu á þróun og hlutverk fangavarðarstarfsins og markmið Fangelsismálastofnunar. Í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að fangavarðarstarfið hafi breyst á síðustu árum og kröfurnar aukist. Áherslan hefur færst frá því að vera "á verði" yfir í að sinna aðgæslu og samskiptum. Í því felst framþróun undanfarins áratugar og sú þróun mun halda áfram. Það þarf að auka hæfni starfsmanna til að leysa vandamál, hafa stjórn á óvæntum aðstæðum og taka þátt í mannlegum samskiptum. Ætlast er til að fangelsi sé skynsamlega rekið, að viðhorf og starfsandi mótist af festu, mannúð og þekkingu á umgjörð og eðli starfsins, þeirri valdbeitingu, lagaheimildum, refsilöggjöf og siðfræði sem að baki býr, að gætt sé að orsök og afleiðingu þvingunar sem beita þarf í fangelsi. Ætlast er til að fangaverðir og aðrir starfsmenn séu hæfir til starfans, fái þjálfun, aðhald og aðbúnað samkvæmt lögum.