Námskeið í skapandi tónlistarmiðlun verður haldið fyrir fanga í Fangelsinu Litla-Hrauni í apríl næstkomandi
Nýstárlegt samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Fangelsisins Litla-Hrauni með það að markmiði að hjálpa öllum þátttakendum við að ná persónulegum árangri og bæta við kunnáttu sína. Skapandi tónlistarmiðlun er fag sem gerir öllum kleift að skapa tónlist saman jafnvel þótt þátttakendur hafi mjög ólíkan tónlistarlega bakgrunn.
Í setningarræðu dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar á norrænni ráðstefnu um menntun í fangelsum sem haldin var í maí 2006 kom fram að hann væri eindreginn hvatamaður þess, að stuðlað væri að listrænu starfi meðal fanga og ýtt undir sköpunarkraft þeirra. Í ræðunni sagði Björn m.a.: "Tel ég tækifæri felast í því fyrir yfirvöld fangelsismála og fanga, að stofnað verði til samstarfs við Listaháskóla Íslands og til dæmis ýtt undir hönnunarvinnu meðal fanga – þá yrðu þeir að nokkru leyti sjálfs síns herrar í þeim skilningi, að verk þeirra mætti selja á markaði."
Fangelsismálastofnun leitaði til Listaháskóla Íslands og í framhaldi af því var ákveðið að halda námskeið í skapandi tónlistarmiðlun fyrir fanga sem vistaðir eru í Fangelsinu Litla-Hrauni í apríl næstkomandi og veitti dómsmálaráðuneytið fjárstyrk til verkefnisins.
Aðalmarkmið námskeiðsins er að tengja saman í námi nemendur í tónlistardeild Listaháskóla Íslands og einstaklinga sem dvelja í Fangelsinu Litla-Hrauni og gera báðum hópum kleift að brjótast út úr sínum venjulegu römmum og vinna að sameiginlegu markmiði, þ.e. að semja nýja tónlist saman. Hópar þessir eru skilgreindir eftir ólíku samhengi, annars vegar klassískt tónlistarfólk sem hefur oft langa þjálfun að baki og flytur tónlist sem fólki finnst oft erfitt að tengja sig við og hins vegar einstaklingar sem villst hafa af leið í samfélaginu, sitja inni og eru ósýnilegir umheiminum.