Fréttir

Reglur um fangaflutninga og þau sjónarmið sem að baki þeim liggja

12.12.2006

Vitað er að flutningur fanga er stór áhættuþáttur varðandi strok. Slík strok hafa þó ekki verið tíð hér á landi en segja má að á síðastliðnum 14 árum hafi aðeins verið um þrjú strok að ræða við fangaflutninga frá Litla-Hrauni. Þetta verður að teljast lág tala þegar haft er í huga að um 1000 fangaflutningar eru frá fangelsinu á ári.

Í kjölfar síðasta stroks fanga frá flutningsmönnum hafa reglur um flutninga fanga verið endurskoðaðar. Í því sambandi vaknaði að sjálfsögðu sú spurning hvort ávallt ætti að flytja fanga í handjárnum eins og tíðkast hjá lögreglu en sú krafa hefur ekki verið gerð varðandi flutning afplánunarfanga. Að athuguðu máli varð niðurstaðan sú að áfram skyldi unnið á sömu braut, það er að byggja á mati á aðstæðum hverju sinni en þó skal flytja fanga í handjárnum í vafatilvikum og gæsluvarðhaldsfangar eru almennt fluttir í handjárnum. Fyrir þessu eru eftirfarandi rök.

Fangaflutningar eru af ýmsum toga og eiga í raun lítið skylt við flutning lögreglu á grunuðum mönnum. Þetta sést best þegar menn velta fyrir sér þeim aðstæðum sem upp kunna að koma í hinu daglega lífi í fangelsunum. Á t.d. að færa fanga sem stundar vinnu eða er í skóla utan fangelsis í handjárnum frá fangelsinu á viðkomandi stað og til baka? Á að flytja fanga í handjárnum í jarðarför náins skyldmennis eða á biðstofu læknis? Sömu fangar geta verið í dagsleyfum mánaðarlega. Niðurstaðan varð sú að byggja verður á faglegu mati flutningsmanna, varðstjóra og eftir atvikum forstöðumanns fangelsis hverju sinni þegar fyrirkomulag fangaflutnings er ákveðið. Sjá reglur um fangaflutninga.



Senda grein