Fréttir

Skráðum kvörtunum vegna fangelsismála fækkaði um helming á árinu 2005

13.11.2006

Samkvæmt nýútkominni skýrslu umboðsmanns Alþingis voru skráðar kvartanir á árinu 2005 vegna fangelsismála alls 10 en voru 20 árið 2004.

Í nýútkominni skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2005 kemur fram að skráðar kvartanir vegna fangelsismála hafi fækkað um helming frá árinu 2004. Þá kemur og fram að framhald hafi orðið á þessari þróun það sem af er árinu 2006. Í skýrslunni segir:

"Meðal annars með hliðsjón af þeim samtölum sem ég hef átt við fanga tel ég ljóst að þessa breytingu megi að stórum hluta skýra með breyttu verklagi sem tekið var upp af hálfu fangelsismálastofnunar í kjölfar þess að nýr forstöðumaður tók þar við. Það er að minnsta kosti ljóst að meðal fanga og aðstandenda þeirra hafa verið uppi væntingar um að þær breytingar sem hrundið hefur verið í framkvæmd á þessu sviði eða boðaðar hafa verið muni leiða til þess að stjórnsýsla fangelsismála verði í minna mæli tilefni athugasemda. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort svo verður áfram en ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu og jafnframt því hversu miklu það skiptir að þeir sem veljast til forystustarfa innan stjórnsýslunnar takist á við viðfangsefni sín með það í huga að bæta stjórnsýsluna og skapa nauðsynlegan skilning á verkefnum hennar og úrlausnum. Ég tek það fram að vegna fangelsismálanna verður einnig að hafa í huga að vorið 2005 voru samþykkt á Alþingi ný lög um fullnustu refsinga nr. 49/2005. Í þeim er tekið á ýmsum atriðum sem áður höfðu orðið tilefni athugasemda við stjórnsýslu og ákvarðanir um málefni fanga. Þessar breytingar á vettvangi fangelsismála urðu til þess að ég taldi rétt að draga um stund úr því almenna eftirliti sem umboðsmaður Alþingis hefur frá stofnun embættisins haldið uppi með stjórnsýslu fangelsanna bæði í formi heimsókna í þau og með athugunum að eigin frumkvæði til viðbótar afgreiðslu kvartana. Ég hafði þá líka í huga það sjónarmið sem ég hef fylgt í starfi umboðsmanns að gefa stjórnsýslunni hæfilegan tíma til að bæta starfshætti sína ef ég merki að áform eru um slíkt en fylgja því síðan eftir hvort þær áætlanir hafi komið til framkvæmda. Það mun því senn koma að því á vettvangi fangelsismálanna og ég mun þá jafnframt ljúka ákveðnum málum sem ég hafði tekið upp að eigin frumkvæði en ákvað að bíða með þar til séð yrði hvert yrði efni nýrra laga um fangelsismál og hvort breytingar yrðu á framkvæmd stjórnvalda varðandi þessi atriði. Þarna er um að ræða mál sem lúta að greiðslum til fanga vegna vinnu þeirra innan fangelsanna og hugsanlegum réttindum tengdum henni, aðgengi fanga að síma í fangelsinu á Litla-Hrauni og heilbrigðisþjónustu við fanga, sérstaklega geðlæknis- og sálfræðiþjónustu."



Senda grein