Fréttir

Kynning á meðferðar- og vistunaráætlun fyrir fanga

1.10.2006

Haldinn var blaðamannafundur í Hegningarhúsinu að Skólavörðustíg 9, Reykjavík, þann 27. september 2006 til að kynna meðferðar- og vistunaráætlun fyrir fanga og enn fremur til að gefa fjölmiðlum kost á að skoða Hegningarhúsið og sjá hvernig lífið þar gengur fyrir sig.

Fangelsismálayfirvöld efndu til blaðamannafundar 27. september sl. m.a. til að kynna meðferðar- og vistunaráætlun sem Fangelsismálastofnun skal, skv. 17. gr. laga um fullnustu refsinga, vinna í samvinnu við fanga. Ákvæði þetta er nýmæli sem tekur mið af evrópsku fangelsisreglunum og dönsku fullnustulögunum. Gert er ráð fyrir að við upphaf afplánunar sé gerð sérstök meðferðar- og vistunaráætlun fyrir hvern fanga. Þar verði að finna mat á stöðu fanga við komu í fangelsi og áætlun um nýtingu úrræða sem í boði eru, með það að markmiði að bæta heilsu fanga og gera þeim kleift að aðlagast samfélaginu sem best þegar afplánun lýkur. Stefnt er að því að gera allt afplánunartímabilið samfelldara eða frá því að dómþoli hefur afplánun þar til skilorðstíma lýkur. Gert er ráð fyrir að meðferðar- og vistunaráætlun muni hafa ákveðnar breytingar í för með sér bæði fyrir fanga, starfsmenn Fangelsismálastofnunar og fangelsanna. Lögð er áhersla á að gera allt starf markvissara og skilvirkara. Sjá einnig frétt frá 6. febrúar 2006.

Þá gafst fjölmiðlum kostur á að kynna sér húsnæði og starfsemi Hegningarhússins og ræða við starfsmenn og fanga.

Valtýr Sigurðsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu, Sigurjón Birgisson, formaður Fangavarðafélags Íslands, Snjólaug Birgisdóttir, félagsráðgjafi hjá Fangelsismálastofnun, Sveinbjörg Pálsdóttir, guðfræðingur, skilorðseftirliti Fangelsismálastofnunar, Bjarnþóra M. Pálsdóttir, verkstjóri, Fangelsinu Kópavogsbraut 17 og Einar Loftur Högnason, íþróttafulltrúi, Fangelsinu Litla-Hrauni, svöruðu fyrirspurnum blaðamanna.



Senda grein