Fréttir

Fundur norrænna fangelsismálastjóra var haldinn á Egilsstöðum dagana 15. - 18. ágúst sl.

22.8.2006

Á fundinum var farið yfir stöðu mála í hverju landi fyrir sig og skipst á skoðunum. Forstjóri Fangelsismálastofnunar fjallaði um stöðu fangelsa í samfélaginu, sjá ræðu forstjóra. Enn fremur var fjallað um ýmis málefni, s.s. konur í fangelsum, samnorrænt verkefni um endurkomur, notkun internets í fangelsum, líðan í fangelsum o.fl.

Meðal þess sem fram kom á fundinum var að mikil vinna hefur verið lögð í að minnka biðtíma eftir afplánun á hinum Norðurlöndunum. Í Danmörku hefur tekist að ráða bót á vandanum m.a. með fjölgun fangaplássa. Í Noregi er hins vegar um 2ja ára bið eftir fangaplássi. Þá kom fram að föngum hefur fjölgað í Finnlandi, aðallega fyrir fíkniefna- og ofbeldisbrot og enn fremur hefur lífstíðardómum þar fjölgað umtalsvert og refsingar lengst. Nýlega hafa Danir tekið upp rafræna vöktun en Svíar hafa verið með slíkt refsiúrræði síðan 1994. Í upphafi var gert ráð fyrir að um 150 fangapláss myndu sparast en raunin varð sú að aðeins 50 - 60 fangapláss spöruðust með fullnustuúrræði þessu. Nú eru uppi áform um að útvíkka skilyrðin. Þá kom fram að Svíar vinna að tillögu til lagabreytinga varðandi töku lífssýna til að athuga fíkniefnaneyslu meðal fanga en ný tækni gerir mögulegt að kanna fíkniefnanotkun með því að rannsaka ýmis lífssýni, svo sem svita. Gerð hefur verið tilraun með notkun þessarar tækni og þótti vel takast til. Þá var fjallað um nauðsyn á aukinni menntun fangavarða, m.a. vegna aukinna geðvandamála meðal fanga. 



Senda grein