Norræn ráðstefna um menntun í fangelsum haldin á Selfossi 18. – 21. maí 2006
Tólfta norræna ráðstefnan um menntun í fangelsum er nú haldin í fyrsta sinn hér á landi og ber hún yfirskriftina ”Fengslende kultur”. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra setti ráðstefnuna í gær. Sjá setningarræðu ráðherra.
Norrænt samstarf um nám í fangelsum á rætur að rekja til áralangrar norrænnar samvinnu þar sem aðilar hafa skipst á reynslu á þessu sviði. Samkvæmt starfsáætlun hins norræna tengslanets fyrir árið 2006 er sjónum einkum beint að því að auka sameiginlega þekkingu á bakgrunni fanga og þörfum þeirra fyrir fræðslu.
Ráðstefnuna sækja um 110 manns, aðallega kennarar, frá öllum Norðurlöndunum. Á ráðstefnunni er fjallað um nám og menningarstarf í fangelsum, svo sem starfsemi leikhópa, kóra, bókasafna, myndlistar og annarra tómstundaverkefna. Þá tekur einn fangi virkan þátt í ráðstefnunni og mun segja frá daglegu lífi fanga í fangelsi.
Ýmis menningarstarfsemi er í fangelsum hér á landi og hefur sr. Gunnar Björnsson æft kór fanga á Litla-Hrauni með góðum árangri. Kórinn söng á ráðstefnunni í dag við frábærar undirtektir ráðstefnugesta.