Fréttir

Meðferðar- og vistunaráætlun

6.2.2006

Í október 2004 setti Fangelsismálastofnun fram markmið stofnunarinnar í fangelsismálum þar sem m.a. kemur fram að mikilvægt sé að að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun. Í því sambandi þyrfti að setja fram einstaklingsmiðaða áætlun um framvindu afplánunarferils sérhvers fanga sem fæli í sér þætti eins og áhættumat, meðferðarþörf, mat á getu til náms og/eða vinnu, sálfræðilegan, félagslegan og annan stuðning. Eftir þessari áætlun yrði síðan unnið með viðkomandi fanga á afplánunartímanum af menntuðu og þjálfuðu starfsfólki og áætlunin endurskoðuð reglulega.

Í lögum um fullnustu refsinga sem tóku gildi 1. júlí sl. er Fangelsismálastofnun í samvinnu við fanga falið að gera slíka áætlun um afplánun og meðferð við upphaf afplánunar.

Fangelsismálastofnun hefur, í samvinnu við fangaverði, unnið að gerð slíkrar áætlunar og tölvuvinnslu í kringum hana. Föngum hefur einnig verið gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum.

Vinna þessi er langt komin en stofnunin mun efna til sérstakrar kynningar á efni og tilgangi vistunaráætlunarinnar áður en hún verður tekin í notkun.



Senda grein