Fréttir

Af helgihaldi í fangelsum landsins - menningarstefna

4.1.2006

Aðventustundin á Litla-Hrauni 14. desember s.l. var afar vel sótt. Að vanda komu góðir gestir og flestir þeirra hafa sungið á aðventustundum undanfarin ár. Jónas Þórir Þórisson, organisti og píanisti, lék af fingrum fram af alkunnri snilld. Páll Rósinkranz hreif fangana með fögrum söng. Þá vakti kraftmikill söngur Önnu Sigríðar Helgadóttur og félaga mikla athygli. Kórinn söng undir stjórn sr. Gunnars Björnssonar og var fagnað innilega. Fangaprestur flutti hugleiðingu og fór með bæn.

Þann 17. desember var svo aðventustund á Kvíabryggju. Í för með fangapresti voru þeir Gunnar Kvaran, prófessor og sellóleikari, og Haukur Guðlaugsson, organisti, fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar. Þeir tveir hafa á umliðnum árum sýnt fangelsunum mikla ræktarsemi, komið og leikið tónlist fyrir fangana. Gunnar Kvaran talar ætíð við þá af sinni einstöku hlýju og djúpu mannviti. Fangaprestur flutti hugleiðingu og fór með bæn.

Allir tónlistarmennirnir eru sjálfboðaliðar á aðventustundum í fangelsunum og fyrir það er þeim þakkað af heilum huga. Eins er starfsmönnum fangelsanna þakkað fyrir einstaka lipurð við allan undirbúning.

Jólaguðsþjónustur í fangelsunum voru með hefðbundnu sniði. Messaði fangaprestur á Sogni á aðfangadegi kl. 14, á Litla-Hrauni kl. 16, í Hegningarhúsinu kl. 18 og kl. 19.30 í Kópavogsfangelsinu. Messur voru yfirleitt vel sóttar. Nýtur fangaprestur aðstoðar þriggja góðra tenóra við messur á Litla-Hrauni og Sogni. Þar voru organistar Haukur Gíslason og Jörg Sondermann. Ármann Hákon, tónlistarmaður, söng og lék á gítar við guðsþjónustur í Hegningarhúsinu og í Kópavogsfangelsinu.

Sóknarpresturinn í Grundarfirði, sr. Elínborg Sturludóttir, sá um helgistund á Kvíabryggju á aðfangadag og sungu Lionsmenn að vanda fyrir fangana.

Helgistund var í Akureyrarfangelsinu á aðfangadag í umsjón Péturs Björgvins Þorsteinssonar, djákna og Boga Péturssonar, kristniboða. Bogi hefur komið svo árum skiptir í Akureyrarfangelsið á mánudögum og rætt við fangana. Hefur honum ætíð verið vel tekið og fangarnir kunnað að meta þennan aldna heiðursmann og boðskap hans.

Þetta helgihald nærir ekki aðeins fangana andlega heldur er hér líka um menningarstarfsemi að ræða. Það er ákaflega ánægjulegt að sjá hve fangarnir taka þessu öllu vel. Vekur það óneitanlega upp þá spurningu hvort ekki sé löngu tímabært að móta menningarstefnu í innra starfi fangelsanna því góð og sígild menning bætir alla.

Sr. Hreinn Hákonarson, fangaprestur.

 

 

 



Senda grein