Fréttir

Í aðdraganda jólahátíðar á Litla-Hrauni

23.12.2005

Í dag verður haldið skákmót á vegum Hróksins og skákfélags fanga, Frelsingjans.

Félagar í skákfélaginu Hróknum sækja fangana á Litla-Hrauni heim og slegið verður upp skákmóti. Hinrik Danielsen, nýjasti íslenski stórmeistarinn og skólastjóri Hróksins og Hrafn Jökulsson, fráfarandi forseti Hróksins, fara fyrir gestaliðinu. Árni Höskuldsson gullsmiður hefur lagt til verðlaunagripi. Hróksmenn koma klifjaðir jólagjöfum til fanganna sem fá bókagjafir frá Eddu útgáfu og Sölku, gisladiska frá Skífunni og Penninn sendir föngunum skáktölvur. Þá fá allir blóm frá Blómaverkstæði Binna.

Hinn 15. desember sl. hélt hljómsveitin Hjálmar og Mugison tónleika á Litla-Hrauni og 19. desember sl. flutti Gunnar Kvaran, sellóleikari, verk J.S. Bach þar. Áheyrendur voru mjög ánægðir með tónleikana. Að venju mætir Bubbi Morthens á Litla-Hraun á aðfangadag og heldur sína árlegu jólatónleika.

Á jóladag sýnir fréttastöðin NSF sérstakan þátt um lífið í fangelsinu á aðventunni.



Senda grein